Innsending verka

Greinar sem sendar eru ritstjórum Milli mála skulu skrifaðar á vönduðu máli og öll vinnubrögð og frágangur til fyrirmyndar.

Allar greinar sem birtast í Milli mála eru sendar í nafnlausa ritrýni hjá tveimur sérfræðingum á því fræðasviði sem greinin er á. Þetta á ekki við um þýðingar (og kynningar sem þeim fylgja), umræðugreinar og umfjöllun um bækur.

Höfundar skulu ganga þannig frá greinum sínum að þær séu tilbúnar fyrir ritrýni. Með því að senda ritstjórum grein til birtingar fellst höfundur á að hún fari í tvöfalda nafnlausa ritrýni sem felst í því að ritrýnar fá ekki upplýsingar um höfund og höfundar fá ekki upplýsingar um ritrýna.

Innsendar greinar aðrar en þýðingar skulu vera frumsamdar og áður óbirtar. Með því að senda grein til ritstjóra tímaritsins staðfestir höfundur að greinin hafi ekki verið birt annars staðar og að hún sé ekki til skoðunar hjá öðru tímariti eða útgáfu á sama tíma og greinin er í vinnslu hjá Milli mála.