Milli mála 2009
Efni þessa fyrsta ársrits er skipt í ritrýndar greinar og annað efni. Með birtingu ritrýndra greina eru uppfylltir þeir alþjóðlegu gæðastaðlar sem taka verður mið af til þess að festa nýtt fræðitímarit í sessi.
Í flokk annars efnis falla greinar sem byggjast á fræðilegum grunni en hafa jafnframt hagnýtt gildi.
Þáttur í því að endurspegla þá fjölbreyttu starfsemi sem fram fer innan vébanda SVF var að gefa hverjum höfundi kost á að rita á móður- eða kennslumáli sínu auk íslensku og ensku. Þetta er bæði til
þess fallið að vekja athygli á tímaritinu á erlendri grund og koma ritsmíð höfundarins á framfæri á viðkomandi málsvæði. Afraksturinn varð fjórtán greinar, þar af níu ritrýndar, á alls sjö tungumálum:
íslensku, dönsku, ensku, ítölsku, rússnesku, spænsku og þýsku. Óhætt er að segja að greinar ársritsins spanni býsna mörg efnissvið þótt allar tengist þær tungumálum eða bókmenntum með einum eða
öðrum hætti. Auk greina sem falla undir bókmenntir og málvísindi í þrengri merkingu er hér að finna greinar með sterkri sagnfræði- eða heimspekilegri tilvísun að ógleymdri umfjöllun um kennslu erlendra
tungumála á háskólastigi. Meginviðfangsefni greinar Auðar Hauksdóttur er tungumálakennsla í Lærða skólanum í Reykjavík á seinni hluta nítjándu aldar og tengsl hennar við viðhorf samfélagsins til tungumála og hlutverks þeirra. Ásdís R. Magnúsdóttir veltir fyrir sér mikilvægi leitarinnar að
merkingu í Sögunni um gralinn og því hlutverki sem lesandanum er þar ætlað. Birna Arnbjörnsdóttir fjallar um notkun ensku sem samskiptamáls og kynnir niðurstöður könnunar á hlutfalli námsefnis á ensku í íslenskum háskólum. Í grein Erlu Erlendsdóttur er rakin saga tveggja orða úr spænsku sjómannamáli sem virðast vera tökuorð af norrænum uppruna og hafa borist inn í spænsku úr frönsku. Þau Hólmfríður Garðarsdóttir og Guðmundur Erlingsson gera grein fyrir sögu spænskrar kvikmyndagerðar og hugleiða hvaða efnistök eigi við í námskeiðum um þennan kafla kvikmyndasögunnar. Oddný G. Sverrisdóttir fjallar um eiginleika og flokkun fastra orðasambanda á grunni rannsókna svissneska fræðimannsins Haralds Burgers, með íslenskum dæmum og hugtakaheitum auk þýskra. Randi Benedikte Brodersen kynnir í grein sinni hugmyndir um heildræna handleiðslu við ritun háskólaritgerða þar sem samræða og samvinna gegna veigamiklu hlutverki. Viðfangsefni Sigurðar Péturssonar eru tilvitnanir í rómverska skáldið Ovidius í ritum, og þá einkum deiluritum, Arngríms Jónssonar lærða. Stefano Rosatti dregur fram hliðstæður í samfélagsrýni ítalska rithöfundarins og kvikmyndaleikstjórans Piers Paolos Pasolinis og bandaríska fræðimannsins Christophers Lasch. Í þeim greinum sem hafa beina hagnýta skírskotun er tungumálakennsla á háskólastigi eðlilega í fyrirrúmi. Annika Große beinir sjónum sínum að kostum hlaðvarps sem kennslumiðils er býður upp á fjölbreytta möguleika. Maurizio Tani tekur fyrir vandamál tengd miðlun ítalskrar sögu og tungu í kennslu sem byggist á því að vefa saman tungumálið sjálft og almenna þekkingarþætti. Í grein Olgu Korotkovu eru sértæk framburðarvandamál íslenskra rússneskunema í brennidepli. Simona Storchi fjallar um náms- og kennsluaðferðir sem stuðla að skilvirkri tileinkun orðaforða í tungumálanámi. Loks gerir Þórhildur Oddsdóttir grein fyrir reynslu sinni af tölvustuddu námi í
fjarkennslu í dönsku við Háskóla Íslands.
EFNISYFIRLIT
- Magnús Sigurðsson, Rebekka Þráinsdóttir: Frá ritstjórum
RITRÝNDAR GREINAR
- Auður Hauksdóttir: Frá fornum málum til nýrra. Um kennslu erlendra tungumála á Íslandi í sögulegu ljósi
- Ásdís R. Magnúsdóttir: Að búa til sögu. Sagan um gralinn
- Birna Arnbjörsdóttir: Enska í háskólanámi
- Erla Erlendsdóttir: “… el guindaste pa guindar la uela” Los vocablos guindar y guindaste, y sus derivados
- Hólmfríður Garðarsdóttir, Guðmundur Erlingsson: „Æðsta form allra lista“. Þróun spænskrar kvikmyndagerðar frá fálmkenndu upphafi til æ meiri fullkomnunar
- Oddný G. Sverrisdóttir: Orð til taks. Af eiginleikum og flokkum fastra orðasambanda
- Randi Benedikte Brodersen: Akademisk vejledning og skrivning – for vejledere og studerende. Mere kollektiv og dialogisk vejledning giver mere læring og flere gode opgaver
- Sigurður Pétursson: Arngrímur og Ovidius
- Stefano Rosatti: Intellectuals Between Dissociation and Dissenting. A Commentary on Two Essays by Pier Paolo Pasolini and Christopher Lasch
AÐRAR GREINAR
- Annika Grosse: Podcasting im Fremdsprachenunterricht Möglichkeiten und Grenzen eines neuen Unterrichtsmediums
- Maurzio Tani: L’insegnamento integrato dell’italiano LS e del linguaggio specialistico della storia (italiana) in modalità CLIL. Alcune riflessioni e proposte pratiche
- Ольга Короткова: К вопросу об изучении русской фонетики и интонации в исландской аудитории
- Simona Storchi: Vocabulary Acquisition in Language Learning
- Þórhildur Oddsdóttir: Að finna upp hjólið – byltingin felst ekki í hugmyndinni heldur í útfærslunni Um þrjú fjarnámskeið í dönsku við Háskóla Ísland
HÖFUNDAR, ÞÝÐENDUR OG RITSTJÓRAR
- Magnús Sigurðsson, Rebekka Þráinsdóttir: Höfundar, þýðendur og ritstjórar