Milli mála 2015
Tímaritið hefst á viðtali við frönsku málvísindakonuna Henriette Walter sem var hér á ferð í október 2015 í tilefni fundar alþjóðlegu ráðgjafanefndar Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur. François Heenen spjallaði við hana um áhuga hennar á málvísindum og verk hennar. Ritstjórum hafa borist fjölmargar greinar undanfarna mánuði og birtast 12 þeirra í heftinu, skrifaðar á ensku, frönsku, ítölsku og spænsku. Í grein sinni „Árstíðasögur, fjarlæg sögusvið: framandi landslag í The Christmas Books og Stories (1843–1867)“ segir Philip Allingham frá áhuga Charles Dickens á öðrum sögusviðum en Lundúnum. Allingham bendir á að erlendir sögustaðir í verkum Dickens gætu endurspeglað áhyggjur hans af sonum sínum fimm en jafnframt að pólitískir, félagslegir og hernaðarlegir atburðir um miðja 19. öld hafi haft áhrif á þessi verk. Verkin voru ætluð breiðum lesendahópi og í myndskreyttum útgáfum þeirra var lögð sérstök áhersla á framandi sögusvið og á að aðlaga sögurnar að smekk lesenda á síðasta þriðjungi 19. aldar bæði í Englandi og vestan hafs. Miguel Carrera Garrido og Ken Benson fjalla um endurskoðun á kanón liðinna alda í spænskum bókmenntum í greininni: „‘Í skini kertaljóss’: Juan Josés Plans og hryllingur á öldum ljósvakans“. Algengt sé að líta svo á að spænsk skáldverk séu raunsæ en nýjar rannsóknir á þætti fantasíunnar í spænskum bókmenntum hafi stuðlað að endurreisn mikilvægra höfunda í þessari jaðarbókmenntagrein. Í greininni er sagt frá hlutverki Juans José Plans, sem bjó til útvarpsþætti um hið yfirnáttúrulega, í endurvakningu á þessum hluta spænskrar samtímamenningar. Grein Susönu S. Fernández, „Viðhorf danskra spænskukennara til fjölmenningalegrar færni í spænskukennslu“, kemur úr annarri átt. Þar segir frá rannsókn á viðhorfum danskra spænskukennara til fjölmenningalegrar kennslu í spænsku. Í ljós kemur að þeir eru meðvitaðir um mikilvægi fjölmenningarlegrar nálgunar en lítil færni nemenda í tungumálinu veldur því að kennarar verða að einbeita sér að undirstöðuatriðum tungumálsins. Þrátt fyrir kröfur stjórnvalda eykur lítil áhersla á fjölmenningu í dönskum prófum og kennaranámi á erfiðleika þess að verja tíma og fjármagni til þessa þáttar tungumálakennslunnar. Í grein sinni „Lýsingarþátíð og staðalímyndir“ heldur François Heenen áfram umfjöllun sinni um Relevance Theory eða gildiskenninguna. Samkvæmt henni hefur tíðarmorfem ekki hugtakamerkingu heldur miðlar það ákveðnu ferli sem viðmælandinn fylgir til að túlka erindið. Hann byggir kenningu sína um frönsku lýsingarþátíðina á þessari skoðun og sýnir hvernig lýsingarþátíðin gefur viðmælanda skipun um að álykta á grundvelli setningarinnar og upplýsinga um aðstæðurnar sem sagnorðið á við. Einnig sýnir hann hvernig útskýra má marga málnotkunareiginleika lýsingarþátíðarinnar og óhefðbundna notkun hennar sem afleiðingu þessa sérstaka túlkunarferlis. Helge Vidar Holm segir frá gagnrýni franska félagsfræðingsins Pierres Bourdieu á hugmyndir Jean-Pauls Sartre í greininni „La lecture bourdivine de L’Idiot de la famille de Sartre“. Í þessu verki fjallar Sartre um ævi og verk Gustave Flauberts og Bourdieu gagnrýnir greiningu Sartres á sambandi Flauberts við tungumálið. Í greininni er bent á hliðstæður í sumum verkum rússneska heimspekingsins Mikhaels Bakhtin. Bourdieu setur einnig fram almenna gagnrýni á hugsun Sartres og ræðst til atlögu við stöðu hans sem „allsherjar“ menntamanns sem drottnaði yfir öllum þeim sviðum sem mynda le champ intellectuel. Greinarhöfundur telur Bourdieu missa marks og að ásakanir hafi hæft hans eigið ofdramb frekar en ofdramb þess sem þær beindust gegn. Í grein sinni „Einvaldur á jaðrinum: María Stúart og menningarlegir yfirburðir „Gloríönu“ í kvikmyndum og sjónvarpi“ fjallar Ingibjörg Ágústsdóttir um þá mynd sem dregin er upp af Maríu Stúart Skotadrottningu og frænku hennar Elísabetu fyrstu Englandsdrottningu í kvikmyndum og sjónvarpsmyndum frá 1970 til dagsins í dag en þær hafa báðar orðið táknmyndir landa sinna. Ímynd Elísabetar, eins og hún birtist í kvikmyndum og dægurmenningu, á sér þó mun sterkari rætur í hugmyndum um þjóðernislega, menningarlega og sögulega yfirburði Englands. Þess vegna er tilhneiging í kvikmyndum um líf Maríu og Elísabetar að halda á lofti og lofsyngja völd og velgengni hinnar ensku „Gloríönu“, andspænis því sem margir telja að hafi brugðist á valdatíma Maríu. Þannig kemur saga Maríu iðulega illa út úr samanburði við sögu Elísabetar fyrstu, með þeim afleiðingum að lítið er gert úr hlutverki Maríu, pólitískri þýðingu hennar og gildi hennar og styrk sem þjóðhöfðingja. Britt-Marie Karlsson og Sara Ehrling skrifa um þýðingar á 16. öld í greininni „Dídó og Eneas á 16. öld í Frakklandi. Þýðing Hélisenne de Crenne á Eneasarkviðu“. Þær beina einkum sjónum að fyrstu frönsku þýðingunni í óbundnu máli á fyrstu fjórum bókum Eneasarkviðu Virgils sem kom út árið 1541 undir dulnefninu Hélisenne de Crenne. Þýðandinn studdist ekki einungis við verk Virgils heldur einnig við þýðingu í bundnu máli frá 1509. Þýðing Crenne er frjáls og hér er sýnt hvernig hún breytir áherslum í sögunni og auðgar frásögn frumtextans. Í grein Ilpos Kempas „Um val á tíðum í spænsku þegar vísar að er til þess sem áður hefur verið sagt í sama texta“ er sjónum hins vegar beint að sagnorðum sem merkja ‘að segja’, t.d. decir, señalar og mencionar, og sögnum tengdum tjáningu og skynjun upplýsinga og staðreynda, t.d. ver og mostrar. Efniviðurinn samanstendur af textum á sviði fræða, vísinda og upplýsinga, þar sem endurvísun er mikið notuð, og spannar tvö helstu svæðisbundnu afbrigði spænskunnar, þ.e. á Spáni og í spænsku Ameríku. Spænska stjórnarskráin frá 1931 innleiddi lýðræðislegt stjórnmálakerfi, Lýðveldið, í samræmi við almennar lýðræðishugmyndir í Evrópu á þeim tíma. Því lauk þegar Franco stofnaði einræði sitt eftir stjórnlagarof og borgarastyrjöld en eftir lát hans var byggt upp lýðræðisríki á Spáni. Lýðræði samtímans hefur frá árum Lýðveldisins og alla 20. öld verið túlkað út frá ólíkum viðhorfum, væntingum og aðstæðum í spænsku samfélagi. Í grein sinni „Ólíkur skilningur á lýðræðishugtakinu í spænskri sagnaritun“ fjallar Ingrid Lindström Leo um ólíkan skilning og túlkanir á hugtakinu lýðræði á Spáni á 20. öld, einkum í sögukennslu í skólum. Grein Söru Lindbladh ber heitið „Va bene og Va be’ í lok samtals – notkun í svörum og endalotum“. Þar segir frá fyrstu skrefunum í greiningu á ítölsku orðræðuögnunum va bene og va be’ í lok samtals. Fjallað er um skörun á notkun þeirra í svarlotum og endalotum. Sýnt er fram á að báðar myndirnar deila þessum tveim almennu notkunarmöguleikum þótt munur sé á þeim eftir samhenginu. Útgangspunktur rannsóknarinnar er lýsing á ögnunum í samskiptamálfræðilegu samhengi. Í ljósi fræðilegra kenninga eru þessar agnir rannsakaðar í smáatriðum, með tilstyrk gagnagrunnsins LIP (Lessico di frequenza dell’italiano parlato). Charlotte Lindgren fjallar um þýðingar í grein sinni „Hvað er eftir af söguhetjunni Brandi í röddum Péturs og Brands. Rannsókn á þýðingum úr sænsku á frönsku“. Þekktustu sögupersónur barnabókahöfundarins Svens Nordqvist eru Pettson og kötturinn Findus (ísl. Pétur og kötturinn Brandur), sem komu fyrst fram í verkum hans árið 1984. Átta bækur hafa komið út í franskri þýðingu undir heitinu Les Aventures de Pettson et Picpus. Hér er sjónum beint að lýsingum á kettinum Findusi/Picpusi í frönsku þýðingunum á þessum bókaflokki, einkum framsetningu á tali Pettsons og Picpusar. Með því að bera saman þýðingu og frumtexta sýnir höfundur hvernig kötturinn er lagaður að franskri menningu. Grein Stefanos Rosatti, „Greining á fyrsta ljóðasafni Clemente Rebora“, varpar ljósi á ágreiningsefni sem fram hafa komið í rannsóknum á ítalska skáldinu Clemente Rebora en einnig á vandamál í sagnfræði og bókmenntum er hann varða. Höfundur styðst við rannsóknir á tungumáli og ljóðrænum stíl Reboras og með því að nýta kenningar úr hugrænni taugasálfræði reynir hann að auðvelda skilning á hinni flóknu skáldskaparlist Reboras. Hér er einkum skoðuð sú persónugerving sem er staðfast og samfellt stílbragð í fyrsta ljóðasafni hans (Frammenti lirici, 1913). Segja má að hún sé þungamiðjan í þessu ljóðasafni og dragi fram ómeðvitað óöryggi og þjáningu skáldsins frammi fyrir óæskilegum og ógnarlegum veruleika. Heftinu lýkur með tveimur þýðingum. Sú fyrri er íslensk þýðing á smásögunni „Bernska“ eftir Ísaak Babel sem Rebekka Þráinsdóttir sneri úr rússnesku. Sú síðari er brot úr franskri gamansögu, Sögunni um Renart, frá 12. öld þar sem menn og dýr í skóginum takast á í baráttu sinni við hungrið; þýðandi er Ásdís R. Magnúsdóttir.
EFNISYFIRLIT
- Ásdís R. Magnúsdóttir og Þórhallur Eyþórsson: Frá ritstjórum
- François Heenen: Viðtal við frönsku málvísindakonuna Henriette Walter
GREINAR
- Philip Allingham: Seasonal Tales, Far-flung Settings. The Unfamiliar Landscapes of The Christmas Books and Stories (1843–1867)
- Miguel Carrera Garrido y Ken Benson: A la luz de la llama de una vela. Juan José Plans y el terror en las ondas
- Susana S. Fernández: Concepciones de los profesores daneses acerca de la competencia intercultural en la clase de español como lengua extranjera
- François Heenen: Imparfait et stéréotypes
- Helge Vidar Holm: La lecture bourdivine de L’Idiot de la famille de Sartre
- Ingibjörg Ágústsdóttir: Marginalised Monarch. Mary Stuart and the Cultural Supremacy of Gloriana as Manifested in Film and TV
- Britt Marie Karlsson et Sara Ehrling: Didon et Énée dans le seizième siècle français. La version d’Hélisenne de Crenne de l’Énéide
- Ilpo Kempas: Acerca de la elección del tiempo verbal en referencias anafóricas a lo previamente mencionado en un mismo texto
- Ingrid Lindström Leo: Divergencias en el entendimiento del concepto de democracia en la historiografía española
- Sara Lindbladh: Va bene e Va be’ nella sequenza conclusiva – tra segnale di risposta e segnale di prechiusura
- Charlotte Lindgren: Que reste-t-il de la voix de Findus dans les voix de Pettson et Picpus, étude d’une traduction du suédois au français
- Stefano Rosatti: Studio su Clemente Rebora
ÞÝÐINGAR
- Rebekka Þráinsdóttir: Um Ísaak Babel
- Ísaak Babel: Bernska. Hjá ömmu
- Ásdís R. Magnúsdóttir: Sagan um Renart – Le roman de Renart
- Án höfundar: Sagan um Renart Le roman de Renart 3. hluti
HÖFUNDAR, ÞÝÐENDUR OG RITSTJÓRAR
- Ásdís R. Magnúsdóttir, Þórhallur Eyþórsson: Höfundar, þýðendur og ritstjórar