Milli mála 2021
Þrjár greinar fjalla að þessu sinni um málakennslu. Birna Arnbjörnsdóttir skrifar um notkun stafrænnar tækni í kennslu íslensku sem annars máls; Þórhildur Oddsdóttir, Brynhildur Anna Ragnarsdóttir, Vár í Ólavsstovu, Eeva-Liisa Nyqvist og Bergþóra Kristjánsdóttir birta grein um kennslu dönsku og sænsku sem annars máls; og Núria Frías Jiménez og Carmen Quintana Cocolina skrifa um spænskukennslu á háskólastigi. Í grein Birnu er fjallað um þá möguleika sem felast í tölvutengdri tungumálakennslu. Þar fer Birna yfir sögu og þróun námskerfisins Icelandic Online en rúmlega hundrað þúsund notendur hafa lokið að minnsta kosti einu námskeiði í kerfinu og mun fleiri notendur hafa heimsótt og notað vefinn. Í grein sinni „Når klodsen falder på plads: Ordforrådet, indholdet og kulturen i teksten – elevernes reaktioner“ fjalla þær Þórhildur, Brynhildur, Vár, EevaLiisa og Bergþóra um val á textum í kennslu norðurlandamála. Hér er byggt á rannsókn á lesskilningi nemenda sem lærðu dönsku sem annað mál í grunnskólum á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum, nemenda sem stunduðu nám í dönsku fyrir unga innflytjendur í Danmörku og nemenda sem lærðu sænsku í skólum þar sem finnska er ríkjandi mál. Núria Frías Jiménez og Carmen Quintana Cocolina fjalla einnig um val á textum í kennslu en í grein sinni fjalla þær um notkun skáldsögunnar Entre visillos eftir spænska rithöfundinn Carmen Martín Gaite í kennslu spænskra bókmennta 19. og 20. aldar á háskólastigi. Þrjár greinar fjalla um orðasambönd og málnotkun, hver með sínum hætti. Erla Erlendsdóttir og Oddný G. Sverrisdóttir skrifa um orðapör í íslensku, þýsku og spænsku. Þær fjalla í grein sinni um flokkun orðapara en ýmist er flokkað eftir formgerð, hljómrænum einkennum og öðrum stíleinkennum og að lokum merkingarlegum venslum kjarnaorða. Samanburður þeirra á orðapörum í málunum þremur leiðir í ljós að bygging og notkun orðapara er sambærileg í málunum þremur. Í greininni „Pieux mensonge ou mensonge blanc? Les collocations dans les dictionnaires bilingues“ fjallar Rósa Elín Davíðsdóttir um skráningu orðastæðna í tvímála orðabókum – ekki fastra orðasambanda, heldur laustengdra orðasambanda sem þó standa sem eining innan setningar og mynda merkingarlega heild. Það getur reynst málnotendum snúið að finna samsvörun slíkra orðasambanda í erlendu máli enda alls óvíst að nákvæm hliðstæða sé til og því brýnt að skrá slík orðasambönd og leiðbeina um notkun þeirra í tvímála orðabókum. Þriðja greinin um orðasambönd og málnotkun er eftir Yuki Minamisawa sem skrifar um notkun íslenska atviksorðsins „gersamlega“. Yuki fjallar um merkingarlegt hljóðfall orðsins, þ.e.a.s. um merkingarblæ sem greina má í notkun þess með öðrum orðum. Yuki bendir á að orðið „gersamlega“ hafi tilhneigingu til þess að vera notað með lýsingarorðum sem hafa neikvæða merkingu og hefur þar af leiðandi neikvætt merkingarlegt hljóðfall. Að lokum birtum við tvær greinar um bókmenntir eftir Danila Sokolov og Ásdísi Rósu Magnúsdóttur en bæði skrifa þau um bókmenntagreinar þar sem ástin er hefðbundið viðfangsefni. Danila fjallar um skáldlega óvissu og sjálfhverfu lýrísks kveðskapar á ensku 11 á síðari hluta 16. aldar. Samfélagsbreytingar og tækninýjungar, svo sem tilkoma prenttækninnar og stirð sambúð prentaðra texta og handrita, skópu bókmenntum þá ákveðinn óstöðugleika. Danila rýnir í kvæði eftir Philip Sidney, Samuel Daniel, Edmund Spenser, Giles Fletcher og Barnabe Barnes og kemst að þeirri niðurstöðu að hin hefðbundnu viðfangsefni sonnetta, þ.e. ástin, sé í raun sjálfhverf allegóría um verufræðilega stöðu textans sjálfs. Grein Ásdísar Rósu fjallar um ævintýrabókmenntir sem voru ný bókmenntagrein í frönskum bókmenntum 17. aldar og einkum samdar af konum og handa konum en ástin var gjarnan meginviðfangsefni þeirra. Ásdís fjallar um tvær af sögum Madame d’Aulnoy, „Hamingjueyjuna“ og „Bláa fuglinn“, og setur þær í bókmenntasögulegt og menningarlegt samhengi. Auk ritrýndra greina birtum við þýðingar úr fjórum tungumálum auk formála þýðendanna. Þórir Jónsson Hraundal hefur þýtt úr arabísku frásögn Ahmad ibn Muhammad ibn Ya‘qub ibn Miskawayh af ferðum víkinga til Kákasusfjalla um miðja 10. öld en víkingar sátu um borgina Barda (í núverandi Azerbaijan) árið 943. Ritgerð ibn Miskawayh er ein af tíu til fimmtán textum sem ritaðir voru á arabísku á 9. og 10. öld og nefna norræna menn. Hún er því mikilvæg samtímaheimild um ferðir víkinga í austurvegi eins og ritgerð Ahmad Ibn Fadlan um ferðir víkinga við Volgubakka árið 922 en hún birtist í Milli mála árið 2019, einnig í þýðingu Þóris. Rúnar Helgi Vignisson birtir þýðingu sína á sögunni „Rip Van Winkle“ eftir bandaríska rithöfundinn Washington Irving (1783– 1859). Þessi smásaga hefur áður birst í íslenskri þýðingu, árið 1966, en Rúnar Helgi hefur þýtt hana að nýju og fer mun nær frumtextanum. Atli Vilhelm Harðarson hefur þýtt úr nýgrísku ljóðið „Kettir heilags Nikulásar“ og kynnir höfundinn Giorgos Seferis, sem hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1963. Kvæðið, sem birtist árið 1969, er byggt á þjóðsögum frá 15. og 16. öld og er talið tengjast andófi gegn herforingjastjórninni á Grikklandi, sem hafði verið við völd í tæp tvö ár þegar kvæði Seferis birtist. Að lokum birtast hér tvær örsögur eftir kúbverska höfundinn Virgilio Piñera Llera í þýðingu Erlu Erlendsdóttur. Sögurnar eiga það sameiginlegt að bregða upp ögrandi myndum af furðulegum kringumstæðum en undir niðri verður lesandi var við óþægilega firringu og jafnvel örvæntingu persónanna.
EFNISYFIRLIT
- Geir Þórarinn Þórarinsson og Þórhildur Oddsdóttir: Frá ritstjórum
RITRÝNDAR GREINAR
- Birna Arnbjörnsdóttir: Tölvutengd tungumálakennsla: Kennslufræði, árangur og möguleikar Icelandic Online námskerfisins
- Þórhildur Oddsdóttir, Brynhildur Anna Ragnarsdóttir, Vár í Ólavsstovu, Eeva-Liisa Nyquist og Bergþóra Kristjánsdóttir: Når klodserne falder på plads: Ordforråd ved tekstlæsning – elevernes reaktioner
- Núria Frías Jiménez og Carmen Quintana Cocolina: Entre visillos: una propuesta didáctica para trabajar la novela de Carmen Martín Gaite con alumnado universitario no nativo
- Erla Erlendsdóttir og Oddný G. Sverrisdóttir: Kurz und bündig, raso y corto eða stutt og laggott: Um orðapör í þýsku, spænsku og íslensku
- Rósa Elín Davíðsdóttir: Pieux mensonge ou mensonge blanc? Les collocations dans les dictionnaires bilingues
- Yuki Minamisawa: Semantic Prosody in Icelandic: Focusing on the adverb gersamlega
- Danila Sokolov: “Pen, paper, inke, you feeble instruments”: The Precarity of Lyric Ontology in Elizabethan Sonnets
- Ásdís Rósa Magnúsdóttir: Um bókmenntaleg ævintýri í Frakklandi á 17. öld: „Hamingjueyjan“ og „Blái fuglinn“ eftir Madame d’Aulnoy
ÞÝÐINGAR
- Þórir Jónsson Hraundal: Ibn Miskawayh og frásögn hans af innreið víkinga í Kákasusfjöllum árið 943
- Ibn Miskawayh: Umsátur víkinga í Barda árið 943
- Rúnar Helgi Vignisson: Washington Irving og „Rip Van Winkle“
- Washington Irving: Rip Van Winkle
- Atli Harðarson: Ljóðið um ketti heilags Nikulásar eftir Gíorgos Seferis
- Gíorgos Seferis: Kettir heilags Nikulásar
- Erla Erlendsdóttir: Um Virgilio Piñera Llera
- Virgilio Piñera Llera: Órjúfanlegt samband
- Virgilio Piñera Llera: Læðan
HÖFUNDAR, ÞÝÐENDUR OG RITSTJÓRAR
- Geir Þórarinn Þórarinsson og Þórhildur Oddsdóttir: Höfundar, þýðendur og ritstjórar