Milli mála 2010

Þema ársritsins að þessu sinni er þýðingar. Í heftinu birtast sex greinar sem fjalla á einn eða annan hátt um þýðingar og auk þess sex greinar um annað efni. Ásdís R. Magnúsdóttir skoðar norrænu þýðinguna á frönsku riddarasögunni Perceval eða Sagan um gralinn eftir Chrétien de Troyes sem hún telur að sé endursögð og löguð að hinum norræna áheyrendahópi og veruleika hans. François Heenen gerir grein fyrir vandanum sem þýðendur standa frammi fyrir þegar þýða á ósamsetta framtíð í frönsku yfir á íslensku en franska tíðin á sér enga hliðstæðu í íslensku sagnakerfi. Guðrún Björk Guðsteinsdóttir fjallar um smásöguna „guest“ eftir Kristjönu gunnars. Hér veltir hún vöngum yfir því hvort smásagan sé þýðing, sköpun eða aðlögun. Irma Erlingsdóttir skrifar um alsírska rithöfundinn assiu Djebar og tilraunir hennar til að skrifa á frönsku og skrifa ekki á frönsku, og val hennar á þriðju leiðinni sem felst í því að „tvítyngja“ frönskuna. Viðfangsefni Kristínar Guðrúnar Jónsdóttur eru þýðingar smásagna úr spænsku á íslensku frá lokum 19. aldar til dagsins í dag. Hún fjallar einnig um frumkvöðlastarf Þórhalls Þorgilssonar, fræðimanns og þýðanda. að lokum skrifar Þórhildur Oddsdóttir um þýðingar úr norðurlandamálum á íslensku, annars vegar á árunum 2000 til 2010 og hins vegar á tímabilinu frá 1960 til 2010. Í ársritinu birtast sex greinar utan þema. andrea Milde og Ásta Ingibjartsdóttir ræða um notkun leiklistar í kennslu erlendra tungumála á háskólastigi og útlista dæmi um leiklistarverkefni í frönsku og þýsku. Birna arnbjörnsdóttir og Hafdís Ingvarsdóttir skrifa um notkun ensku í fræðaheiminum og kynna jafnframt niðurstöður rannsóknar um viðhorf kennara við Háskóla Íslands til eigin enskukunnáttu og færni í notkun ensku í kennslu og við ritun fræðitexta. Pétur Knútsson gerir mörkun texta að umtalsefni og kynnir til sögunnar bendla sem vísa leiðina í völundarhúsi hans. Stefano Rosatti ber saman tvö ólík verk eftir Ítalann Galíleo og beinir þá einkum sjónum að málsniði og tjáningarformi verkanna. Randi Benedikte Brodersen kynnir meginniðurstöður úr rannsókn sinni þar sem hún notar hnitunargreiningu til að skoða hvernig Danir búsettir í Noregi laga tungumál sitt að norsku. Og í síðustu greininni skoðar Kaoru Umezawa framburð á íslenskum mannanöfnum á japönsku.