Milli mála 2013

Þema þessa heftis er útlendingar og eru sjö greinar tileinkaðar því viðfangsefni sem fjallað er um frá ýmsum sjónarhornum og á ólíkum tungumálum. Þrjár þeirra eru helgaðar íslensku sem öðru máli. Í grein sinni um Íslenskuþorpið segja Guðrún Theódórsdóttir og Kolbrún Friðriksdóttir frá merkilegri tilraun til þess að efla og fjölga tækifærum nema í íslensku sem öðru máli til þess að tala íslensku við Íslendinga í daglegu lífi. Í Íslenskuþorpinu voru skapaðar aðstæður fyrir nema til þess að beita íslenskunni í hversdagslegum erindum, með aðstoð starfsmanna ýmissa fyrirtækja. María Garðarsdóttir og Sigríður Þorvaldsdóttir fjalla um tileinkun falla hjá þeim sem hafa íslensku að öðru máli. Þær gera fyrst grein fyrir fallarannsókn á þýsku sem öðru máli, í ljósi úrvinnslukenningar Pienemanns og kynna niðurstöður rannsóknar á þróun fallatileinkunar í frumlögum og andlögum í íslensku sem öðru máli. Tungumálapróf fyrir innflytjendur eru svo viðfangsefni Ara Páls Kristinssonar í grein hans „Innflytjendur og íslenskupróf“. Þar segir frá þeirri þróun að hvetja fullorðna útlendinga til þess að læra íslensku og láta þá taka próf í tengslum við umsókn um ríkisborgararétt. Sagt er frá sendibréfi Tómasar Sæmundssonar sem birtist í Fjölni 1836 í grein Marion Lerner og það sett í samhengi við ævisögu og ferðareynslu höfundar. Tómas var þá nýkominn heim úr langri menntaferð um Evrópu og ferðalýsing hans í bréfinu sýnir að menntamaðurinn leit á það sem skyldu sína að deila reynslu sinni og þekkingu með lesendum sínum. Sögur skoska rithöfundarins Robins Jenkins, The Expatriates og „Imelda and the Miserly Scot“ eru til umfjöllunar í grein Ingibjargar Ágústsdóttur. Ingibjörg beinir sjónum að ástarsamböndum hvítra manna og litaðra kvenna í verkunum og greinir þau út frá sjónarhorni síðnýlendustefnu og femínisma. Samböndin er táknræn fyrir feðraveldið en einnig samskipti heimsveldis og nýlendu og endurspegla þannig „tvöfalda nýlendukúgun“. Í grein Stefanos Rosatti segir frá hinum miklu fólksflutningum á Ítalíu eftir sameininguna 1861 og til upphafs fyrri heimsstyrjaldarinnar. Mikil fólksfækkun varð í sveitum og vinnuafl var af skornum skammti. Viðhorf stjórnvalda til flutninganna voru neikvæð og þau höfðu sterk áhrif á sýn rithöfunda á þessa þróun. Í verkum þeirra er dregin upp dökk mynd af flutningum vestur um haf og afleiðingum þeirra. Ferðir Evrópubúa vestur um haf eru einnig til umfjöllunar í grein Ásdísar R. Magnúsdóttur um villimenn Nýja heimsins í skrifum Frakkans Michels de Montaigne, sem er þekktur fyrir rit sitt Essais eða Tilraunir. Lýsingar á skrælingjum Nýja heimsins höfðu mikil áhrif á Evrópubúa, ekki síst sögur af mannáti. Ásdís segir frá esseyjuformi Montaignes og því hvernig sjálfsmynd, sýn á „hinn“ og samfélagsgagnrýni fléttast saman í esseyjunni „Af mannætum“. Af greinum utan þema ber fyrst að nefna umfjöllun Þórhildar Oddsdóttur um stöðupróf sem haldin voru í fjórum tungumálagreinum við Háskóla Íslands haustið 2012. Prófin eru tilraun í viðkomandi greinum í Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda til þess að mæla færni nemenda við upphaf BA-náms út frá Viðmiðunarramma Evrópuráðsins. Hér gerir Þórhildur grein fyrir niðurstöðum prófa í dönsku. Annemette Hejlsted fjallar í grein sinni „Terapeuten og vampyren“ um skáldsögu Tove Ditlevsen, Man gjorde et Barn Fortræd (Barni gert mein, 1941). Annemette skoðar skáldsöguna út frá tengslum skáldskaparfræða og birtingarmynda kynjanna. Hún sýnir einnig hvernig höfundurinn tvinnar saman frásagnaraðferðir sálgreiningar og sakamálasögunnar í verki sínu, ekki síst í persónu aðalsöguhetjunnar. Næst koma tvær greinar sem fjalla báðar um tökuorð á sviði siglinga og skipasmíði. Í þeirri fyrri, sem er eftir Elisabeth Ridel, segir frá orðum sem lýsa reiðabúnaði og verklagi um borð í skipum og er að finna í normönnskum og engilnormönnskum bókmenntatextum frá 12. öld. Elisabeth varpar ljósi á ólíkan uppruna orðanna og bendir á sterk áhrif norrænna manna á siglingahætti í Normandí. Sú seinni er eftir Erlu Erlendsdóttur, sem fjallar um sjómannaorð af norrænum uppruna í spænsku, en það eru einkum orð er snúa að skipasmíði og siglingum. Hér er fjallað sérstaklega um orð sem lúta að rá og reiða og ferð þeirra úr norrænu máli, í gegnum normönnsku og frönsku, yfir í spænsku. Ein þýðing birtist í tímaritinu. Ásdís R. Magnúsdóttir þýðir esseyju Michels de Montaigne „Af mannætum“ sem hún fjallar um í fyrrnefndri grein sinni. Magnús Sigurðsson á lokaorðin að þessu sinni með ítarlegri umfjöllun sinni um rit Pauls Kußmaul, Verstehen und Übersetzen. Ein Lehr- und Arbeitsbuch, frá árinu 2010.

EFNISYFIRLIT

  • Ásdís R. Magnúsdóttir, Erla Erlendsdóttir, Rebekka Þráinsdóttir: Frá ritstjórum

AÐRAR GREINAR

ÞÝÐINGAR

UMFJÖLLUN UM BÆKUR

HÖFUNDAR, ÞÝÐENDUR OG RITSTJÓRAR