Milli mála – Tímarit um erlend tungumál og menningu Leiðbeiningar til höfunda um frágang efnis

Prentvæn útgáfa (pdf-skjal)

1. Skil greina

Tekið er við greinum úr öllum algengum ritvinnsluforritum. Gott er að uppsetning sé sem einföldust. Viðmiðunarlengd ritrýndra fræðigreina er 5000–8000 orð en bókadómar, bókakynningar o.þ.h. geta verið styttri.

Grein berist ritstjórum sem viðhengi í tölvupósti. Ef myndir fylgja greininni skal greinarhöfundur sjá um að útvega þær og skila á forminu TIFF eða EPS.

Upplausn þarf að vera a.m.k. 300 punktar/tommu fyrir litmyndir og 200 punktar/tommu fyrir svarthvítar myndir. Ekki er gert ráð fyrir að myndir sem fylgja greinum verði prentaðar í lit. Höfundur skal semja við eiganda höfundar-eða birtingarréttar ef um slíkt er að ræða. Myndum skulu fylgja upplýsingar um höfund, sköpunarár og eiganda. Vista skal myndirnar með númeri og heiti (Mynd_1_heiti). Í greinartexta skal auðkenna hvar eðlilegast væri að birta myndina (t.d. „Mynd nr. 1 hér“). Skýringarmyndum skal skila frágengum á PDF-formi.

Tekið er við töflum sem fylgja greinum vistuðum í excel-skjali. Heiti töflu og númer, skýringar og heimildir skulu tilgreindar við töfluna. Í greinartexta skal auðkenna hvar eðlilegast væri að birta töfluna (t.d. „Tafla nr. 1 hér“).

2. Letur, spássíur, línubil og tákn

Letrið skal vera Times New Roman 12 pt. í öllum fyrirsögnum og meginmáli. Spássíur skulu vera 2,5 cm á alla vegu og línubil 1½. Mikilvægt er að höfundur fjarlægi skipanir sem varða ‘Paragraph Spacing’.

Skáletur skal einungis nota í:

  1. dæmaorðum/dæmasetningum
  2. bókartitlum
  3. erlendum hugtökum sem sýnd eru til að skýra betur íslenskt hugtak, dæmi: […] en einnig að efla lýðræðislega borgaravitund (e. democratic citizenship)

Eina hlutverk feitleturs er að leggja áherslu á orð eða auðkenna mikilvæg hugtök. Aðrar leturbreytingar en þessar skal gera í samráði við ritstjóra.

Nota skal einfaldar gæsalappir til að afmarka merkingu orða eða orðasambanda (t.d.: Wortart ‘orðflokkur’; come straight to the point ‘koma sér beint að efninu’). Styttri beinar tilvitnanir (innan við þrjár línur, u.þ.b. 40 orð eða færri) í meginmáli eru afmarkaðar með venjulegum íslenskum gæsalöppum („…“). Heimilt er að nota annars konar gæsalappir í greinum á öðrum tungumálum en íslensku ef það samsvarar hefðum viðkomandi málsvæðis. Lengri beinar tilvitnanir (lengri en þrjár línur eða meira en u.þ.b. 40 orð) skal setja, án gæsalappa, í sérstakar efnisgreinar með 10 pt. letri, auðri línu á undan og eftir og inndrætti sem nemur 1 cm.

Viðbætur við tilvitnanir skal setja í hornklofa og merkja með fangamarki greinarhöfundar, dæmi: [hér er óljóst til hvers höfundur vísar; N.N.].

Úrfellingu í tilvitnun skal auðkenna með þremur úrfellingarpunktum (sem finna má í ‘symbols’) í hornklofa: […]

Einnig skal greinarhöfundur taka fram ef hann breytir leturgerð í tilvitnun, dæmi: „Mefistó segist vilja illt en gjöra gott [leturbr. mín].“

3. Uppsetning greina

Nafn höfundar skal standa fremst í sérlínu. Þar fyrir neðan standi háskóli eða stofnun.

Auðkenna skal greinaskil með inndrætti (notið TAB-takkann til þess eða stillið uppsetningu skjals).

Skrifa skal út ártöl í meginmáli, t.d. 1666–1688 (en ekki 1666–88) og nota þankastrik á milli blaðsíðutala og þegar eitthvað er frá–til.

Hverri grein skal fylgja útdráttur á ensku og íslensku upp á 150–250 orð, ásamt 5 lykilorðum á íslensku og ensku.

4. Tilvísanir

Allar bókfræðilegar upplýsingar um þau verk sem vitnað er í eru gefnar í númeruðum neðanmálsgreinum þegar fyrst er minnst á verkið. Neðanmálsgrein skal jafnan ljúka með punkti.

Hægt er að heimila frávik frá leiðbeiningum þeim sem hér er að finna ef grein er rituð á erlendu tungumáli og fyrirmælin stangast augljóslega á við hefðir viðkomandi málsvæðis.

Nota skal hástafi í upphafi orða í enskum bókatitlum og greinum.

Gefa skal upp útgáfuár fyrstu útgáfu, ef um endurútgáfu er að ræða, t.d.: William P. Ker, Epic and Romance: Essays on Medieval Literature, New York: Dover, 1957 [1896], bls. 256–257.

Ef vitnað er í rit (A) í öðru riti (B) þá eru bókfræðilegar upplýsingar teknar eins og þær birtast í riti B og síðan gefnar bókfræðilegar upplýsingar um rit B, t.d.: Etienne de la Boétie, De la Servitude Volontaire, 1892, bls. 15–17, í: Michael Andrew Screech, Montaigne and Melancholy, The Wisdom of the Essays, Harmondsworth: Penguin, 1983, bls. 111–112.

A.    Þegar vitnað er til bókar (mónógrafíu) í fyrsta sinn:

Nafn, Bókartitill, Nafn þýðanda ef um þýðingu er að ræða, Útgáfustaður: Forlag, Útgáfuár, blaðsíða/ur sem vitnað er til.

Dæmi: Jacques Derrida, Spectres de Marx: L’état de la dette, le travail du deuil et la nouvelle internationale, París: Galilée, 2003, bls. 15.

B.    Þegar vitnað er til greinar í bók í fyrsta sinn:

Nafn höfundar, „Greinartitill“, Bókartitill, Ritstjóri, Útgáfustaður: Forlag, Útgáfuár, heildarblaðsíðutal greinar, blaðsíða/ur sem vitnað er til.

Dæmi: Susanna Radstone og Bill Schwarz, „Introduction: Mapping Memory“, Memory: Histories, Theories, Debates, ritstj. Susanna Radstone og Bill Schwarz, New York: Fordham University Press, 2010, bls. 1–9, hér bls. 3.

C.    Þegar vitnað er til tímaritsgreinar í fyrsta sinn:

Nafn höfundar, „Greinartitill“, Heiti tímarits Hefti (ef fleiri en eitt árlega)/Útgáfuár, heildarblaðsíðutal greinar, blaðsíða/ur sem vitnað er til.

Dæmi: Matthew Whelpton, „Going is not Becoming. Some Comments on the Resultative in English (and Icelandic)“, Milli mála 2012, bls. 151–177, hér bls. 155–160.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir, „Er heimspekin kvenfjandsamleg?“, Ritið 1/2013, bls. 183–205.

D.    Þegar vísað er aftur í rit:

Ef tilvísun í sama rit kemur í beinu framhaldi:

Sama rit, blaðsíða/ur sem vitnað er til.

Dæmi: Sama rit, bls. 100.

Ef tilvísun í sama rit kemur síðar í grein:

Nafn höfundar, Bókartitill [má stytta ef langur], blaðsíðutal.

Dæmi: Jacques Derrida, Spectres de Marx, bls. 15.

Nafn höfundar, „Greinartitill [Má stytta ef langur]“, blaðsíðutal.

Dæmi: Matthew Whelpton, „Going is not Becoming“, bls. 171–172.

Ef augljóst er af samhengi í hvaða rit er verið að vísa dugar blaðsíðutal innan sviga í meginmáli (bls. 88).

E.    Beinar tilvitnanir í erlend rit

Beinar tilvitnanir í erlend rit eru annað hvort hafðar á íslensku eingöngu eða á íslensku í meginmáli og á frummáli neðanmáls. Sé greinarhöfundur þýðandi tilvitnana skal þess getið í neðanmálsgrein/sviga strax á eftir tilvitnun.

F.    Vefheimildir

Þegar vísað er í vefsíðu skulu upplýsingar um hvenær viðkomandi vefsíða er

sótt/skoðuð koma í hornklofa strax á eftir tengli á síðu:

Evrópska tungumálamappan, http://www.menntamalaraduneyti.is [sótt 6. júlí 2011].

Að öðru leyti skal farið með efni á Netinu eins og um útgefna heimild sé að ræða (titill á grein skal skáletraður ef ekki er tímarit að baki, annars á tímaritinu). Ef ekki fylgir útgáfuár efninu skal auðkenna það sem e.d. (engin dagsetning).

Beatrice Farnsworth, „Conversing with Stalin, Surviving the Terror: The Diaries of Aleksandra Kollontai and the Internal Life of Politics“, Slavic Review 4/2010, bls. 944–970, hér bls. 950, http://www.jstor.org/stable/pdfplus/27896144.pdf [sótt 6. júlí 2013].

 

Athugið:

Þessar leiðbeiningar eru ekki tæmandi og eru greinarhöfundar hvattir til að hafa samband við ritstjóra um öll vafaatriði.

 

ritstjórar