Milli mála birtir fræðigreinar á öllum sviðum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum málum, þ.á m. bókmenntum, málvísindum, þýðingafræði og kennslufræði erlendra tungumála. Allar fræðigreinar eru ritrýndar.

1. Almennt hefti Milli mála

Almennt hefti kemur út í desember árlega. Auk ritrýndra fræðigreina birtir tímaritið þýðingar og umfjöllun um bækur. Tekið er við greinum á íslensku, dönsku, ensku, þýsku, frönsku og spænsku. 

Skilafrestur greina er 1. apríl.

Fyrirspurnir og greinar skulu sendar til ritstjóra Milli mála:

2. Sérhefti Milli mála 2026 (1) – Leikritaþýðingar

Leikritaþýðingar eru sérstakt svið innan bókmenntaþýðinga. Þótt leiktexta megi lesa sem bókmenntaverk er hann fyrst og fremst ætlaður til flutnings á sviði, sem gerir allt aðrar kröfur til texta en lestur af bók. Þýddan texta þarf auk þess að færa í nýjan búning til að verkið verði leikhæft á nýju leiksviði. Orðaleikir, menningarlegar tilvísanir og form (bundið mál, óbundið) eru meðal þeirra áskorana sem þýðendur þurfa að takast á við – í nánu samstarfi við leikstjóra og leikendur – til þess að verkið skili sér til nýrra áhorfenda. Mislangt er gengið í aðlögun textans, en í sumum tilvikum eru verk endurrituð og má þá deila um hver sé höfundur textans.

 

Sérhefti Milli mála 2026 er ætlað að vekja athygli á vægi og vanda leikritaþýðinga og glímu þýðenda og leikara við leiktextann. Hér á landi hafa erlend leikverk mótað leikhús og leikritun frá upphafi. Leikritaþýðingar skipa því sérstakan sess innan íslenskrar leiklistarsögu, en hafa þó ekki síður haft áhrif á leikritun og sviðslistir í öðrum löndum. Kallað er eftir erindum þar sem sjónum er beint að ólíkum hliðum leikritaþýðinga, nú sem fyrr, innanlands og utan.

 

Greinar í Milli mála eru oftast ritrýndar, en tímaritið birtir líka óritrýndar greinar eftir því sem við á. Frestur til að skila greinum í sérheftið er til 1. apríl 2026. Æskileg lengd ritrýndra greina er á bilinu 5000–8000 orð, að meðtöldum neðanmálsgreinum, en óritrýndar greinar geta verið styttri.

 

Tekið er við greinum á íslensku, ensku og frönsku.

Milli mála – tímarit um tungumál og menningu er gefið út af Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og er í opnum aðgangi á netinu. Leiðbeiningar til höfunda er að finna á heimasíðu tímaritsins: millimala.hi.is.

 

Vinsamlega sendið greinar til ritstjóra sérheftisins:

Ásdís R. Magnúsdóttir, asdisrm@hi.is

Guðrún Kristinsdóttir, gudrunkr@hi.is

Irma Erlingsdóttir, irma@hi.is