1. Reglur um frágang handrits
Grein skal berast ritstjórum sem viðhengi í tölvupósti með ósk um birtingu. Tekið er við greinum úr öllum algengum ritvinnsluforritum. Gott er að uppsetning sé sem einföldust. Viðmiðunarlengd ritrýndra fræðigreina er 5000–8000 orð að meðtöldum neðanmálsgreinum en frátaldri heimildaskrá og ágripum. Bókadómar, bókakynningar o.þ.h. geta verið styttri. Öllum greinum skal fylgja um 150–250 orða ágrip á íslensku með íslenskum titli og á ensku með enskum titli óháð því á hvaða máli greinin er skrifuð auk fimm lykilorða.
Ef myndir fylgja greininni skal greinarhöfundur sjá um að útvega þær og skila á forminu TIFF eða EPS. Upplausn þarf að vera a.m.k. 300 punktar/tommu fyrir litmyndir og 200 punktar/tommu fyrir svarthvítar myndir. Höfundur skal semja við eiganda höfundar- eða birtingarréttar ef um slíkt er að ræða. Myndum skulu fylgja upplýsingar um höfund, sköpunarár og eiganda. Vista skal myndirnar með númeri og heiti (Mynd_1_heiti). Í greinartexta skal auðkenna hvar eðlilegast væri að birta myndina (t.d. „Mynd nr. 1 hér“). Skýringarmyndum skal skila frágengum á PDF-formi.
Tekið er við töflum sem fylgja greinum vistuðum í excel-skjali. Heiti töflu og númer, skýringar og heimildir skulu tilgreindar við töfluna. Í greinartexta skal auðkenna hvar eðlilegast væri að birta töfluna (t.d. „Tafla nr. 1 hér“).
Nafn höfundar skal standa fremst í sérlínu. Þar fyrir neðan standi háskóli eða stofnun.
2. Letur, spássíur, línubil og tákn
Letrið skal vera Times New Roman 12 pt. í öllum fyrirsögnum og meginmáli. Spássíur skulu vera 2,5 cm á alla vegu og línubil 1½. Mikilvægt er að höfundur fjarlægi skipanir sem varða „Paragraph Spacing“. Auðkenna skal greinaskil með inndrætti (notið TAB-takkann til þess eða stillið uppsetningu skjals).
Skáletur skal einungis nota í:
- dæmaorðum/dæmasetningum
- bókartitlum og heitum blaða og tímarita
- erlendum hugtökum sem sýnd eru til að skýra betur íslenskt hugtak, dæmi: […] en einnig að efla lýðræðislega borgaravitund (e. democratic citizenship)
Eina hlutverk feitleturs er að leggja áherslu á orð eða auðkenna mikilvæg hugtök. Aðrar leturbreytingar en þessar skal gera í samráði við ritstjóra.
Nota skal íslenskar gæsalappir („…“) til að afmarka merkingu orða eða orðasambanda (t.d.: Wortart „orðflokkur“; come straight to the point „koma sér beint að efninu“). Styttri beinar tilvitnanir (innan við þrjár línur, u.þ.b. 40 orð eða færri) í meginmáli eru einnig afmarkaðar með gæsalöppum. Heimilt er að nota annars konar gæsalappir í greinum á öðrum tungumálum en íslensku ef það samsvarar hefðum viðkomandi málsvæðis. Lengri beinar tilvitnanir (lengri en þrjár línur eða meira en u.þ.b. 40 orð) skal setja, án gæsalappa, í sérstakar efnisgreinar með 10 pt. letri, auðri línu á undan og eftir og inndrætti sem nemur 1 cm. Næsta efnisgrein hefst ekki á inndrætti.
Viðbætur við tilvitnanir skal setja í hornklofa og merkja með fangamarki greinarhöfundar, dæmi: [hér er óljóst til hvers höfundur vísar; N.N.].
Úrfellingu í tilvitnun skal auðkenna með þremur úrfellingarpunktum (sem finna má í ‘symbols’) í hornklofa: […] Einnig skal greinarhöfundur taka fram ef hann breytir leturgerð í tilvitnun, dæmi: „Mefistó segist vilja illt en gjöra gott [leturbr. mín].“
Skrifa skal út ártöl í meginmáli, t.d. 1666–1688 (en ekki 1666–88) og nota millistrik (Ctrl -) án stafabils á milli ártala, blaðsíðutala og þegar eitthvað er frá–til. Nota má lengra þankastrik (Ctrl Alt -) með stafabilum á milli í texta.
Nota má fyrirsagnir í aðgreindum köflum og millifyrirsagnir, eftir atvikum númeraðar, en ekki skal nota meira en tvö þrep kaflaskiptingar. Til dæmis:
2. Hellenísk þekkingarfræði
2.1 Þekkingarfræði Epikúrosar
3. Tilvísanir
Tilvísanir fara eftir Chicago-kerfinu. Höfundar mega velja milli þess afbrigðis annars vegar sem styðst við tilvísanir til heimilda í svigum í meginmáli (en þá er vísað til höfundar og ártals) og hins vegar þess afbrigðis sem styðst við tilvísanir til heimilda í neðanmálsgreinum (vísað til höfundar og titils). Í öllum tilvikum fylgir heimildaskrá og er stuðst við 17. útg. Chicago Manual og Style.
Einungis skal vísa til vefslóða þegar nauðsynlegt er. Aldrei skal vísa í lokuð vefsvæði.
Dæmi má sjá hér.