Milli mála – Tímarit um erlend tungumál og menningu er alþjóðlegt veftímarit í opnu aðgengi gefið út af Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum (SVF) við Háskóla Íslands. Tímaritið kom fyrst út árið 2009, þá sem ársrit stofnunarinnar, en fékk núverandi heiti sitt árið 2012. Tímaritið er rafrænt og birtist árlega í Open Journal Systems vef Háskóla Íslands (https://ojs.hi.is/millimala). Milli mála birtir ritrýndar fræðigreinar á sviði erlendra tungumála, bókmennta, málvísinda, málakennslu og þýðingafræði en einnig birtir tímaritið þýðingar, viðtöl, ritdóma eða bókakynningar eftir því sem rúm leyfir hverju sinni. Sérhefti Milli mála eru helguð afmörkuðum viðfangsefnum og er ritstýrt af gestaritstjórum (sjá Greinakall).
Milli mála birtir greinar á íslensku, ensku, dönsku, þýsku, frönsku og spænsku.

Milli mála 2023(1) – sérhefti 

Í þessu öðru sérriti Milli mála er sjónunum beint að þætti daoisma og dulspeki í hugmyndaheimi og verkum Halldórs Laxness. Alls hefur ritið að geyma sjö greinar eftir sérfræðinga á sviði bókmenntafræði, heimspeki, siðmenningargreiningar og trúarbragðafræði sem nálgast efnið frá ólíkum sjónarhornum og veita lesendum dýpri innsýn í þessa hlið á Nóbelsskáldinu en áður hefur sést. Allar greinarnar eru unnar upp úr erindum málþingsins „Skáldið, taóið og dulspekin“ sem fram fór við Háskóla Íslands í október 2021. 

Heftið í heild sinni má nálgast hér. 

Milli mála 2023(2)

Heftið sem hér birtist er annað hefti 15. árgangs. Að þessu sinni birtum við sex ritrýndar greinar um málvísindi, tungumálakennslu, bókmenntir og menningu, auk einnar óritrýndrar greinar (sem er þýdd úr dönsku), og tveggja þýddra smásagna ásamt kynningu á höfundi þeirra.