Milli mála 2023
Þann 16. október 2021 stóð Vigdísarstofnun, í samstarfi við Reykjavík bókmenntaborg UNESCO og Gljúfrastein, fyrir málþingi við Háskóla Íslands undir yfirskriftinni „Skáldið, taóið og dulspekin“. Tilefni málþingsins var að á árinu voru liðin 100 ár frá útgáfu fyrstu íslensku útleggingarinnar á kínverska fornritinu Bókinni um veginn eða Dao De Jing 道德經 eins og það heitir á frummálinu. Rit þetta hefur síðan verið þýtt fjórum sinnum til viðbótar á íslensku, þar af einu sinni úr fornkínversku undir titlinum Ferlið og dygðin, en þessi fyrsta endursögn eftir bræðurna Jakob J. Smára og Yngva Jóhannesson hefur þó jafnan notið mestrar hylli meðal íslenskra lesenda og er ein líkleg ástæða þess að Halldór Kiljan Laxness skrifaði formála að annarri útgáfu þýðingarinnar sem út kom árið 1971 eða á 50 ára afmæli hennar.
Erindin á málþinginu snerust flest um áhrif heimspeki daoismans á verk Halldórs og túlkanir hans sjálfs á hugmyndum hennar en einnig var leitað fanga víðar í íslenskri bókmenntasögu og grafist fyrir um annars konar dulspekileg áhrif á Nóbelsskáldið, t.d. frá indverska spekingnum Rabindranath Tagore sem naut mikilla vinsælda á Íslandi á fyrri hluta 20. aldar. Skemmst er frá því að segja að málþingið heppnaðist svo vel að ákveðið var að leita til ritnefndar Milli mála við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og falast eftir því að gefið yrði út sérrit með greinum sem þátttakendur á málþinginu ynnu út frá erindum sínum. Þessu var afar vel tekið beggja megin borðs og nú, tveimur árum síðar, lítur sérritið dagsins ljós með lengri og ítarlegri greinum eftir sjö af átta fyrirlesurum málþingsins frá árinu 2021.
Hinum mikla fjölda íslenskra og erlendra sérfræðinga um verk Halldórs Laxness hefur að sjálfsögðu ekki yfirsést að heimspeki daoismans reyndist vera honum talsverður innblástur og í gegnum tíðina hafa margir þeirra vikið að þeim áhrifum í umfjöllun sinni um höfundarverk hans. En hvorki er sjálfgefið né eðlilegt að haldbær þekking á daoisma eða annarri asískri heimspeki og verkum Nóbelsskáldsins eigi samleið hjá einum og sama fræðimanni. Af þessum sökum hefur skort nokkuð á dýpri og markvissari úttekt á þessum áhrifum og víðtækari merkingu þeirra í höfundarverki hans. Þar að auki gerði Halldór sjálfur þá heimspeki sem er að finna í bæði Bókinni um veginn og verkum Tagores að umfjöllunarefni sínu í fáeinum styttri ritsmíðum en um þær hefur ekki verið ýkja mikið fjallað.
Höfundar Dao De Jing hvetja lesendur sína til að beina athygli sinni að þeim þáttum veruleikans sem við hneigjumst til að veita litla eða enga athygli, t.d. tóminu í herbergi eða drykkjaríláti, sem þó gerir okkur kleift að nota þau sem slík. Segja má að í þessu sérriti Milli mála sé sjónum sérstaklega beint að ákveðnu „tómi“ í höfundarverki Halldórs Laxness. Hér er þó ekki ætlunin að veita tóminu aðeins athygli heldur einnig að fylla í það, að minnsta kosti að nokkru leyti. Það er von ritstjóra að greinum sérritsins sýni lesendum þess fram á hversu mikilvægt þetta tóm er og að þeim verði öðrum hvatning til frekari rannsókna um þetta eða skyld efni.
Heftið í heild sinni má nálgast hér
EFNISYFIRLIT
- Geir Sigurðsson: Frá gestaritstjóra
RITRÝNDAR GREINAR
- Geir Sigurðsson: Ónefnanlegt dao og ónefnt de: Um túlkun Halldórs Laxness á Daodejing
- Bergljót Soffía Kristjánsdóttir: „yfirstöplun […] heilagra vébanda“. Um daóisma, samfélag og endurnýjun frásagnarinnar í fáeinum verkum Halldórs Laxness
- Jóhann Páll Árnason: „Kveiking frá hugskoti“: Taóisminn í meðförum Halldórs Laxness
- Kristín Nanna Einarsdóttir: „Organsláttur lífsins“ og blístur almættisins: Organistinn og séra Jón Prímus í taóísku ljósi
- Benedikt Hjartarson: Um fiðlukenndan róm og annarlegan söng hins dreymna austræna vitrings: Rabindranath Tagore á Íslandi
ÓRITRÝNDAR GREINAR
- Halldór Guðmundsson: Þar sem sögunni lýkur tekur taó við
- Pétur Pétursson: Halldór Kiljan Laxness, daoisminn og dulspeki
HÖFUNDAR, ÞÝÐENDUR OG RITSTJÓRAR
- Geir Sigurðsson: Höfundar, þýðendur og ritstjórar