Milli mála 2016

Tímaritinu hafa borist fjölmargar greinar undanfarna mánuði og birtast tíu þeirra í þessu hefti, skrifaðar á íslensku, ensku, frönsku, spænsku og þýsku. Níu greinanna eru ritrýndar en ein flokkast fremur sem fræðileg ritgerð eða hugleiðing („esseyja“). Fyrsta ritrýnda greinin er eftir Anton Karl Ingason, Einar Frey Sigurðsson og Jim Wood og ber hún titilinn ,,,,Þáttur var tekinn í hlaupinu af Höskuldi.“ Samspil fastra orðasambanda og setningagerðar“. Greinin fjallar um föst orðasambönd í íslensku sem eru túlkuð á sérstakan hátt sem ekki er fyrirsegjanlegur út frá merkingu einstakra orða. Fjallað er um þá eiginleika sem einkenna föst sagnasambönd og kenningar sem settar hafa verið fram af bandaríska málvísindamanninum Noam Chomsky og fleirum um greiningu á slíkum gögnum. Sýnt er fram á að þessar kenningar henta vel við greiningu á setningagerðum í íslensku. Pilar Concheiro Coello ritar greinina „Áhugahvöt og samfélagsmiðlar í kennslu spænsku sem erlends máls“. Rannsóknin sem þar er lýst sýnir hvernig notkun á Facebook sem stafræns vinnuumhverfis í kennslu spænsku sem erlends tungumáls getur haft hvetjandi áhrif á nemendur í tileinkun markmálsins. Þannig geta nemendur nýtt sér Facebook til að búa til og deila efni á spænsku sem tengist þeirra persónulega reynsluheimi og tjá öðrum það. Það leiðir til þess að lærdómsferlið hefur meiri þýðingu í augum nemendanna. Rannsóknin var byggð á raungögnum og með tilstyrk megindlegra rannsóknaraðferða var reiknað út hvort notkun samfélagsmiðla hefði jákvæð áhrif á áhuga og viðhorf nemendanna. Orð af norrænum uppruna, einkum orð sem lúta að skipasmíði og siglingum, voru tekin upp í normandísku þaðan sem þau bárust inn í frönsku sem miðlaði þeim aftur á móti til annara rómanskra tungumála, til að mynda spænsku. Þetta er viðfangsefni Erlu Erlendsdóttur í greininni „Quilla, branque, estrave… Sjómannaorð af norrænum uppruna“. Sem dæmi má nefna heiti á ýmsum skipshlutum og verkfærum sem voru notuð um borð í skipum fyrr á tímum. Þessi heiti koma fyrst fyrir í spænskum textum frá 16. og 17. öld sem voru skrifaðir í kjölfar landafundanna miklu í Vesturheimi. Í greininni „Lýsingarþátíð (imperfait) og háttarmerking“ tekur François Heenen upp þráðinn frá síðasta hefti (Milli Mála 7, 2015) þar sem sú kenning var sett fram að franska lýsingarþátíðin miðli ákveðnu ferli sem viðmælandinn fer eftir til að túlka segðina. Þessi kenning getur að mati höfundarins útskýrt af hverju þessi tíð er oft notuð til að tjá óraunverulega atburði. Skýringin væri þá sú að viðkomandi ferli leiði huga viðmælandans frá aðgengilegasta samhenginu. Höfundurinn veltir líka fyrir sér hvernig lýsingarþátíð í skilyrðissetningum fær nútíðarmerkingu í stað þátíðarmerkingarinnar sem einkennir hana almennt að öðru leyti. Að mati hans er það vegna þess að segðin er túlkuð sem endurhugsun annarrar segðar sem inniheldur sögn í nútíð. Hólmfríður Garðarsdóttir ritar grein sem hún nefnir „Miðamerískar sjálfsmyndir við ströndina: Mörg andlit mestizaje í frásögum eftir kostaríska rithöfundinn Anacristna Rossi“. Greinin beinir sjónum að menningarlegri fjölbreytni á Karíbahafssvæði Mið-Ameríkuríkja. Hún gerir ósýnileika ýmissa minnihlutahópa að sérstöku umtalsefni og þá ekki hvað síst á Karíbahafsströnd Kostaríku. Meginefniviður rannsóknarinnar er sóttur í tvær skáldsögur kostaríska rithöfundarins Anacristina Rossi sem báðar gerast á umræddum slóðum og „bregða ljósi á fjölsamsettan uppruna íbúa Kostaríku og þar af leiðandi fjölmenningarlegan bakgrunn nútíma samfélags“, ásamt því að rannsaka mennningararf og sögu landsins. Alexander Künzli og Gunnel Engwall fjalla um August Strindberg sem frönskumælandi rithöfund í grein sem nefnist „Hinn franski Strindberg í þýðingu: dæmi af Varnarræðu vitfirrings“. Markmiðið er að skoða hvernig franskur yfirlesari hans fór með sérkennin á frönskunni sem hann ritaði og hvernig þau komu fram í þýðingum Varnarræðunnar. Í ljós koma mikil frávik frá frumtexta skáldsögunnar sem eru ekki skilyrt af viðmiðum markmálsins, sérstaklega í fyrstu endurskoðuðu útgáfunni á frönsku en einnig í nýjustu sænsku og ítölsku þýðingunum. Þar að auki sýnir textagreining að ekki einungis hafi upprunalegt handrit Strindbergs veitt þýðendum innblástur heldur einnig eldri þýðingar á viðkomandi tungumál. Höfundarnir benda á að mögulegt væri að þýða Varnarræðuna upp á nýtt þar sem frekari tilraunir yrðu gerðar með tungumálið. Eiginnafnið Ester (eða Esther) er áhugavert af ýmsum ástæðum, eins og Margrét Jónsdóttir fjallar um í grein sinni „Beygingarsaga nafnsins Ester“. Í þessari grein er skýrt frá beygingarsögu nafnsins í íslensku, allt frá því að það kemur fyrst fyrir í Guðbrandsbiblíu (1584) til okkar daga. Áhugavert er að þótt nafnið Ester fái venjulega eignarfallsendinguna -ar í nútímamáli kemur endingin -s þó stundum fyrir, auk þess sem nafnið kemur líka fyrir endingarlaust. Í greininni er einnig hugað að stöðu sérnafna og hlutverki þeirra. Anne Elisabeth Sejten ritar grein sem hún nefnir „Myndir vatnsins – tilraun til lesturs á Camus í anda Bachelard“. Í greininni er fjallað um náttúrulýsingar hjá Albert Camus með því að velja „einfalda“ nálgun sem tengist fremur „efnislegri ímyndun“ en táknrænni og táknsögulegri túlkun. Höfundur sýnir fram á að ólíkt viðteknum hugmyndum um Camus sem skáld sólarinnar bendi nánari lestur til þess að vatn yfirgnæfi önnur frumefni. Í anda franska heimspekingsins Gaston Bachelard er því lýst hvernig framsetning náttúrunnar hjá Camus er afbyggð út frá hugmyndum um vatnið sem hinn „leynda sjóndeildarhring fegurðarinnar“. Kvæðaþýðingar Gríms Thomsen hafa löngum þótt góð dæmi um aðlögun erlends skáldskapar að íslenskum hefðum og hugarfari. Þessu efni gerir Svavar Hrafn Svavarsson skil í grein sinni „Grímur Thomsen og framandgerving Pindars“. Í greininni er því haldið fram að Grími hafi ekki gengið til að staðfæra skáldskap Pindars og annarra forngrískra skálda heldur hampi hann framandleikanum og vilji þannig auðga íslenskar bókmenntir. Raunar má segja að Pindar sé nánast „framandleikinn holdi klæddur“ og því kemur ekki á óvart að þýðingum Gríms hafi oftast verið tekið fálega og þær talda sérviska gamalmennis sem var ósáttur við samtíma sinn. Mikill fengur er að þýðingu Gríms Thomsen á Ólympískri drápu I eftir Pindar sem birt er ásamt gríska frumtextanum og ákvæmri þýðingu í óbundnu máli. Auk ritrýndra greina er í heftinu fræðileg ritgerð („esseyja“) eftir Wolf Wucherpfennig sem nefnist „List og skemmdarfýsn í nútímanum“. Ritgerðin sýnir í fyrsta lagi hvernig list í skilningi gnostískrar hugsunar bregst við þjáningu vegna hinnar raunverulegu skemmdarfýsnar sögunnar með því að sætta menn við óleysanlega tvíbendni tilverunnar. Í öðru lagi sýnir greinin hvernig nútímalist hefur auk þess – allt frá tímum framúrstefnunnar – ýmist brugðist við hinni raunverulegu firringu með listrænni framandgervingu eða hefur sjálf af skemmdarfýsn teflt þjáningunni sem leifum mennskunnar fram gegn afmenskuninni. Loks eru í heftinu þrjár þýðingar (fyrir utan Pindar-þýðingu Gríms Thomsen sem áður er getið). Hólmfríður Garðarsdóttir birtir hér þýðingu sína, „Stefanía“ eftir Carmen Lyra frá Kostaríku. Erla Erlensdóttir birtir þýðingu sem nefnist „Gamla konan“ eftir Doru Alonso sem var af spænsku og kúbönsku bergi brotin. Að endingu þýðir Ásdís R. Magnúsdóttir nokkrar „esseyjur“ (Essais) eftir Michel de Montaigne, einn þekktasta andans mann í sögu Frakklands.

CONTENT

PEER-REVIEWED ARTICLES

ESSEY

TRANSLATIONS

AUTHORS, TRANSLATORS AND EDITORS HÖFUNDAR