Milli mála 2011
Sex af þeim sjö greinum sem hér birtast fjalla um þema heftisins, sem er erlendar bókmenntir, frá ýmsum sjónarhornum. Í þeirri sjöundu segir frá rannsókn á tungumálakennslu og aðlögun innflytjenda á Norðurlöndum. Greinarnar eru skrifaðar á íslensku, ensku og ítölsku, enda hefur það verið stefna ritstjórnar frá upphafi að gefa höfundum kost á að skrifa á móður- eða kennslumáli sínu. Ásdís R. Magnúsdóttir fjallar í grein sinni um Útlendinginn eftir Albert Camus og íhugar hvað í því felst að vera „útlendingur“ í því verki. Hún bendir á tengsl skáldsögu Camus við önnur skáldverk og „útlendinga“ og ber saman við Perceval og Söguna um gralinn eftir Chrétien de Troyes. Í grein Hólmfríðar Garðarsdóttur er fjallað um tvær skáldsögur eftir kostarísku skáldkonuna Anacristina Rossi með áherslu á minnihlutahópa og fjölmenningarsamfélög á Karíbahafsströnd Kostaríku. Magnús Fjalldal segir frá hörðum ritdeilum sem upp komu á 9. áratug 19. aldar í kjölfarið á harkalegum ritdómi sem Eiríkur Magnússon skrifaði um þýðingu Matthíasar Jochumssonar á leikritinu Óthello eftir William Shakespeare. Martin S. Regal fjallar um hvernig skoða má aðlögun bókmenntaverka að mismunandi listformum, tímum, umhverfi og menningarheimum með því að nota hugtök úr líffræði og tekur hið 2.500 ára gamla verk Antígónu sem dæmi. Í grein Oddnýjar G. Sverrisdóttur segir frá ferðalýsingum tveggja þýskra kvenna, en önnur þeirra kom til Íslands um miðja 19. öld og hin í upphafi þeirrar 20. Oddný bendir á hvernig frásagnir þessara þýsku ferðalanga geta bæði gagnast í menningartengdri ferðaþjónustu, sem er æ meira að ryðja sér til rúms, og dýpkað skilning okkar á okkur sjálfum sem þjóð og gestgjöfum. Stefano Rosatti fjallar um Lezioni americane eftir Italo Calvino, sex fyrirlestra um bókmenntir sem hann hugðist halda í Bandaríkjunum og hafa verið taldir til hans merkustu fræðiverka. Rosatti bendir á veikleika í þessu verki Calvinos og íhugar hvers vegna það hefur notið svo mikilla vinsælda, til að mynda í háskólakennslu víða um heim. Birna Arnbjörnsdóttir segir frá samnorrænni rannsókn á aðlögun innflytjenda og þætti símenntunar og fullorðinsfræðslu á Norðurlöndum, og veltir fyrir sér hvað hefur áunnist í þeim efnum á Íslandi og hvað mætti betur fara. Þá eru ótaldar þær þýðingar sem hér eru birtar úr frönsku, kínversku, portúgölsku og spænsku. Jón Egill Eyþórsson og Geir Sigurðsson birta þýðingar á ljóðum eftir tvö kínversk skáld, Dú Fú, sem var uppi á 8. öld, og Bei Dao, samtímamann okkar. Þó að margar aldir skilji skáldin að yrkja þau bæði um sársaukafullar afleiðingar valdabaráttu og kúgunar. Ásdís R. Magnúsdóttir þýðir smásögu eftir frönsku skáldkonuna Madame Lafayette sem var uppi á 17. öld og veitir okkur forvitnilega innsýn í veröld og siðferði franska aðalsins á þessum tíma. Loks er að nefna þýðingar undirritaðrar á ljóðum eftir portúgalska nóbelsverðlaunaskáldið José Saramago og ritgerð eftir argentíska skáldið og rithöfundinn Jorge Luis Borges, sem hlaut aldrei náð fyrir augum Sænsku akademíunnar en er þó talinn til fremstu rithöfunda 20. aldar.
CONTENT
- Sigrún Ástríður Eiríksdóttir, Erla Erlendsdóttir: Frá ritstjórum
THEMATIC ARTICLES
- Ásdís R. Magnúsdóttir: Útlendingur og óviti. Um Útlendinginn eftir Albert Camus og Söguna um gralinn eftir Chrétien de Troyes
- Hólmfríður Garðarsdóttir: Að skyggnast í skúmaskotin. Um fjölmenningarsamfélag við Karíbahafsströnd Kostaríku í verkum Anacristina Rossi
- Magnús Fjalldal: Ys og þys út af Shakespeare
- Martin S. Regal: Adaptation Studies and Biological Models, Antigone as a Test Case
- Oddný G. Sverrisdóttir: Í fótspor ferðalanga. Af ferðalýsingum Idu Pfeiffer og Inu von Grumbkow
- Stefano Rosatti: Uno studio critico sulle Lezioni americane di Calvino
OTHER ARTICLES
- Birna Arnbjörnsdóttir: Stefna og framkvæmd símenntunar og aðlögun innflytjenda á Íslandi og öðrum Norðurlöndum
TRANSLATIONS
- Bei Dao: Til minninganna, Á morgun, nei
- Dú Fú: Tunglskinsnótt
- Jorge Luis Borges: Hógværð sögunnar
- José Saramago: Yfirlýsing, Stund, 14. júní
- Madame de Lafayette: Greifynjan af Tende. Söguleg smásaga
AUTHORS, TRANSLATIONS AND EDITORS
- Sigrún Ástríður Eiríksdóttir, Erla Erlendsdóttir: Höfundar, þýðendur og ritstjórar