Milli mála 2018

Í þetta sinn eru fjórar ritrýndar greinar í heftinu, á sviði þýðingafræði, bókmennta og orðfræði. Í grein sinni „Avókadó og maís“ heldur Erla Erlendsdóttir áfram umfjöllun sinni um tökuorð með rætur í samfélögum frumbyggja spænsku Ameríku. Orðin bárust til Evrópu með landafundamönnum og landkönnuðum á 15. og 16. öld, fyrst til Suður-Evrópu og síðan norður eftir álfunni til Norðurlanda. Hér rekur rekur Erla ferð nytjaplantnanna maíss og avókadós inn í íslensku og önnur tungumál Evrópu þar sem flökkuorðin skutu rótum og gefur fjölmörg dæmi um rithátt og aðlögun orðanna að nýjum heimkynnum. Eitt leikverk franska rithöfundarins Hélène Cixous er viðfangsefni Irmu Erlingsdóttur í greininni „L’Histoire terrible mais inachevée de Norodom Sihanouk, roi du Cambodge“ (Hræðileg en ólokin saga Norodoms Sihanouk, konungs Kambódíu). Sjónum er beint að þeirri mynd sem Cixous dregur upp af aðalpersónunni Sihanouk og túlkun hennar á hlutverki hans í borgarastyrjöld í Kambódíu, kalda stríðinu og Víetnamstríðinu. Irma varpar einnig ljósi á sögulega þætti leikritsins og fjallar um togstreitu Sihanouks andspænis ímynd hinnar eilífu Kambódíu annars vegar og þeim málamiðlunum sem hann neyðist til að gera hins vegar. Annað franskt leikrit er til umfjöllunar í grein Guðrúnar Kristinsdóttur, „Tartuffe í sögu og samtíð“. Tartuffe eftir Molière er eitt vinsælasta verk franskra leikbókmennta og undanfarin ár hefur gamanleikurinn verið sýndur í mörgum uppfærslum í Evrópu.  Verkið inniheldur áleitna þjóðfélagsádeilu á blekkingu, hræsni, trúgirni og almenn óheilindi. Guðrún segir frá viðtökum leikritsins, sem frumsýnt var við hirð sólkonungsins Loðvíks XIV., á ritunartíma verksins, en einnig uppfærslum síðustu ára. Að lokum fer greinarhöfundur yfir sýningarsögu leikritsins hér á landi frá því að tveir þættir þess voru fyrst settir upp í Iðnó árið 1929 til nýrrar uppfærslu Þjóðleikhússins í þýðingu Hallgríms Helgasonar á vordögum 2019. Þýðingar á bókmenntaverkum geta skipt sköpum um viðtökur þeirra og þar er þýðandinn í lykilhlutverki. En hversu langt má hann ganga í verki sínu? Í grein sinni „Nærvera og túlkun þýðandans. Notkun hliðartexta í þýskri þýðingu á Pilti og stúlku eftir Josef C. Poestion“ fjallar Marion Lerner um sýnileika og ósýnileika þýðandans út frá þýðingu Josefs C. Poestion á skáldsögunni Piltur og stúlka eftir Jón Thoroddsen úr íslensku á þýsku. Austurríski þýðandinn hikaði ekki við að nota hliðartexta á borð við tileinkanir, formála, neðanmáls- og aftanmálsgreinar o.fl. til að koma athugasemdum og upplýsingum á framfæri og átti þannig í stöðugu samtali við lesendur sína. Þessi mikla nærvera þýðandans í textanum endurspeglar ekki einungis afstöðu þýðandans til verksins heldur einnig skoðanir hans á íslensku þjóðinni. Í þýðingafræðilegri orðræðu undanfarinna áratuga hefur mikið verið fjallað um ósýnileika þýðandans og hann jafnvel gagnrýndur. Marion Lerner rýnir hér í túlkun Josefs C. Poestion á verkefni þýðandans og markmiði hans með þýðingum úr íslensku. Þýðingar og þær spurningar sem vakna í því samhengi eru einnig viðfangsefni Olgu Markelovu sem fjallar stuttlega um þýðingu sína á skáldsögu Hallgríms Helgasonar, 101 Reykjavík, á rússnesku. Eitt af því sem vafðist hvað mest fyrir henni voru margvíslegir orðaleikir höfundar en slík orðaleikfimi getur reynst þýðendum nokkur höfuðverkur. Hér segir Olga frá því hvernig hún leysti þann vanda og gefur nokkur lýsandi dæmi úr þýðingu sinni. Í þessu hefti Milli mála er nú að finna verk fjögurra þýðenda. Jón Egill Eyþórsson þýðir tvö ljóð eftir hið fræga kínverska ljóðskáld Wang Wei, „Hsiang Chi-hof (hof vaxandi ilms) sótt heim“ og „Dádýrsgerði“ og segir frá höfundinum. Rebekka Þráinsdóttir kynnir stuttlega hið þekkta rússneska skáld Aleksander Púshkín og þýðir einnig smásögu hans „Stöðvarstjórinn“. Tvær smásögur eftir rússneska rithöfundinn Varlam Tíkhnovítsj Shalamov, „Að næturlagi“ og „Smiðir“, birtast hér í þýðingu Áslaugar Agnarsdóttur sem segir einnig frá höfundi verkanna. Að lokum birtast hér þýðingar Kristínar Guðrúnar Jónsdóttur á tveimur smásögum argentínsku skáldkonunnar Silvinu Ocampo, „Rekkjuvoð jarðar“ og „Flauelskjóllinn“. Kristín kynnir einnig höfundinn.

CONTENT

PEER-REVIEWED ARTICLES

COVERAGE OF A TRANSLATION 

TRANSLATIONS

AUTHORS, TRANSLATORS AND EDITORS