Milli mála 2012

Þema þessa heftis er tungumál og fjalla tólf greinar um það efni frá ólíkum sjónarhornum, allt frá andlegum þáttum tungumálsins og hestamálfræði til nýrra aðferða í kennslu erlendra tungumála og stöðu þeirra í íslensku skólakerfi. Í þetta sinn eru greinarnar skrifaðar á íslensku, ensku, ítölsku, norsku, spænsku og þýsku. Birna Arnbjörnsdóttir og Hafdís Ingvarsdóttir segja frá ólíkri stöðu erlendra tungumála á Íslandi og setja fram tillögur að breyttum áherslum í ensku- og dönskukennslu í íslensku málumhverfi og hvernig styðja megi við tungumálanám almennt í íslensku skólakerfi. Erla Erlendsdóttir birtir tvær greinar í heftinu; í þeirri fyrri fylgir hún orðum úr nahuatl og mayamáli sem tekin voru upp í ýmsum tungumálum í Evrópu á 15.–17. öld. Seinni grein Erlu fjallar um orð af norrænum uppruna – flest tengd skipasmíði og siglingum – sem bárust úr frönsku yfir í spænsku og með spænsku til Nýja heimsins þar sem þau fengu mörg hver nýja merkingu. Í grein sinni „Hestamálfræði“ gerir Gro-Tove Sandsmark málfræðilega og bókmenntafræðilega greiningu á ljóðasyrpu Øyvinds Rimbereids Jimmen, sem tilnefnd var til Norrænu bókmenntaverðlaunanna árið 2011. Þar segir frá sambandi manns og hests sem tala sitt hvort tungumálið: mállýsku frá Suðvestur-Noregi og hestamál. Samband þeirra og samstarf er náið og í bókarlok renna tungumál þeirra saman. Isabel de los Reyes Rodríguez Ortiz segir frá slæmri stöðu heyrnarlausra spænskra ungmenna í skólakerfinu á Spáni þrátt fyrir lög um jafnrétti til náms og rétt til túlkunar. Hún bendir á að túlkun ein og sér nægi ekki til að tryggja jafnt aðgengi heyrnarlausra að þekkingu og menntun. Jessica Guse greinir frá notkun slamljóðlistar í kennslu þýsku sem erlends máls. Þessi tiltölulega nýja ljóðlist fjallar um málefni nútímans og býður upp á umræður um efni sem nemendur eiga auðvelt með að nálgast og tileinka sér. Því þurfi að kanna betur möguleika á því að nýta hana til að bæta kunnáttu nemenda í þýsku sem erlendu máli. Í grein sinni „Að fara er ekki að verða“ fjallar Matthew Whelpton um útkomusetningar (t.d. The blacksmith hammered the metal flat) og færir rök fyrir því að greina þurfi á ólíkan hátt útkomusetningar með sögnum sem tjá ástandsbreytingu og sögnum sem tjá hreyfingu til þess að munur þessara tveggja setningagerða verði ljós. Hann bendir auk þess á ýmiss konar mun á þessum setningagerðum. Oddný G. Sverrisdóttir segir frá eiginleikum og tilurð stakyrða – steingervinga tungumálsins – í föstum orðasamböndum. Hún tekur dæmi um stakyrði í nokkrum algengum þýskum orðasamböndum og skýrir mismunandi bakgrunn stakyrðanna. Hún bendir einnig á mikilvægi fastra orðasambanda sem innihalda stakyrði í kennslu erlendra tungumála. Í grein Péturs Knútssonar breytast orðin í vind; hér er sagt frá málfræði sem gerir bæði efnislegum og andlegum þáttum tungumálsins skil. Pétur fjallar um esóteríska túlkun á setningunni „ekki er orð nema vindur“ úr enska 13. aldar ritinu Ancrene Wisse og ólíkar þýðingar á biblíuhugtakinu ruach/pneuma/spiritus og leggur áherslu á aðferðir tungumálsins sjálfs til að ýta undir slíka túlkun. Pasolini og staða ítölskunnar er viðfangsefni Stefanos Rosatti. Stefano gerir grein fyrir viðhorfum Piers Paolo Pasolini til ítölskunnar á 7. áratugnum en þau viðhorf að ítölskunni væri stýrt af ákveðnum yfirstéttarhópum urðu kveikjan að miklum umræðum um ítalskt mál. Þær voru teknar saman í bók af Oronzo Parlangéli. Hér er sagt frá bók Parlangélis og skoðanir Pasolinis greindar út frá ítölsku samfélagi liðinna ára. Þórhallur Eyþórsson fjallar um myndhvörf og notkun myndmáls í íslensku í tengslum við hrunið. Hann segir frá ólíkum skoðunum fræðimanna um mikilvægi myndhvarfa til skilnings á eðli hugsunar og tungumáls og staldrar hér einkum við kenningar George Lakoff og Stevens Pinker. Í grein sinni fjallar Þórhildur Oddsdóttir um orðaforða og hlutverk hans í tileinkun erlendra tungumála. Þórhildur segir frá því hvernig orðaforði festist í minni og hvað þarf til að virkja hann í samskiptum. Orðaforðarannsóknir sýna mikilvægi þess að þekkja margræð merkingarsvið orða og orðasambanda til að auka málhæfni. Brýnt er að niðurstöður þeirra berist inn í íslenskt skólasamfélag. Hluti heftisins er tileinkaður þýðingum. Ásdís R. Magnúsdóttir þýðir hér stutta og gamansama ljóðsögu frá upphafi 13. aldar þar sem sagt er frá öfgafullum myndum ástar og afbrýði. Hólmfríður Garðarsdóttir snýr ljóði eftir argentínsku skáld- og blaðakonuna Esther Andradi. Hún þýðir einnig tvo texta eftir argentínska rithöfundinn Fernando Sorrentino og Aðalbjörg Rós Óskarsdóttir bætir þeim þriðja við. Saman veita þeir okkur innsýn í forvitnilegan hugarheim Sorrentinos. Rebekka Þráinsdóttir þýðir tvær smásögur eftir rússneska rithöfundinn Ljúdmílu Úlítskaju en verk hennar hafa vakið verðskuldaða athygli innan og utan heimalandsins. Sigrún Ástríður Eiríksdóttir þýðir hér tvo kafla úr verki eftir Steven Pinker, The Language Instinct. How the Mind Creates Language. Kaflarnir sem um ræðir (1. og 12. kafli) fjalla um tungumálið sem eðlislægan eiginleika sem gerir börnum kleift að ná tökum á móðurmáli sínu þótt þau hafi afar takmarkaðar upplýsingar um málfræði þess. Út frá þeim forsendum að tungumálið sé okkur öllum eðlislægt gerir hann enska tungu, málfræðireglur og hina svokölluðu „málvendi“ að umtalsefni og færir að því rök að margar reglur í enskri málfræði séu bæði órökréttar og óeðlilegar. Að lokum birtum við hér valda kafla úr verki franska rithöfundarins og kvikmyndagerðarmannsins Xaviers Durringer, Chroniques des jours entiers, des nuits entières (Krónikur dags og nætur), í þýðingu Ástu Ingibjartsdóttur. Durringer leggur áherslu á notkun talmáls og hefur texti verksins oft verið sviðsettur.

CONTENT

THEMATIC ARTICLES

TRANSLATIONS

AUTHORS, TRANSLATIONS AND EDITORS