Milli mála 2019

Í þetta sinn eru fimm ritrýndar greinar í heftinu og er efni þeirra á sviði bókmennta, málvísinda og kennslufræði erlendra tungumála. Í grein sinni „Jákvæð viðhorf háskólastúdenta til tungumálanáms/ tungumálakunnáttu“ gera þau Birna Arnbjörnsdóttir, Jón Ólafsson og Oddný Sverrisdóttir grein fyrir niðurstöðum könnunar meðal nemenda við Háskóla Íslands. Þær sýna að nemendur telja að faglegur ávinningur felist í tungumálanámi og að stór hluti þeirra myndi bæta við sig tungumálakunnáttu ef slíkt félli betur að námi í einstökum greinum. Höfundar benda á að fjárhagsmódel skólans vinni gegn því að nemendur geti aukið sérþekkingu sína á einstökum svæðum, menningarheimum og tungumálum. Niðurstaða þeirra er sú að þetta dragi úr gæðum námsins almennt og kalla þurfi eftir kerfisbreytingum sem auðvelda nemendum að fella tungumálakunnáttu inn í fagþekkingu sína. Erla Erlendsdóttir og Nuria Frias Jimenez birta hér greinina „Negro sobre blanco/svart á hvítu: acercamiento a la fraseología cromática en español y en islandés“ (Negro sobre blanco/svart á hvítu: um liti í spænskum og íslenskum orðasamböndum). Hér er fjallað um rannsókn þar sem borin voru saman orðasambönd úr spænsku og íslensku. Í brennidepli voru orðasambönd sem heyra undir merkingarsviðið „litir“. Tilgangur rannsóknarinnar var að draga fram það sem tungumálin eiga sameiginlegt og hvað ekki, sem og helstu menningarsöguleg einkenni orðasambandanna. Smíðaður var korpus úr efniviði sem fékkst úr ýmsum orðasambandabókum og orðasambandabönkum beggja tungumála og við gerð hans var tíðni valinna
orðasambanda og notkun höfð að leiðarljósi. Niðurstöður rannsóknarinnar nýtast annars vegar í smíði flettna fyrir tvímála orðabækur, eða tvímála orðasambandabækur og hins vegar í kennslu spænsku sem erlends máls á Íslandi. Í greininni „Telecollaboration HI-UB: online interaction and exchange in a language course“ (Netsamskipti milli HÍ og UB: samskipti og samræður í tungumálanámi) kynnir Pilar Concheiro námskeiðið Talþjálfun II: Fjölmiðlar og hversdagsmenning sem kennt er í fjarnámi við Háskóla Íslands og Háskólann í Barselóna (sp. Universidad de Barcelona). Þátttakendur við Háskóla Íslands eru spænskunemar en nemarnir í Barselóna eru í spænskukennararanámi. Gerð er grein fyrir hönnun æfinga og námsmati en fjarnámsverkefnið byggist á mismunandi samskiptaæfingum sem unnar eru með fjarfundabúnaði, Whatsapp og Flipgrid. Einnig er fjallað um áhrif þessara aðferða á tungumálahæfni íslensku nemanna sem og viðbrögð þeirra og viðhorf til verkefnisins. Grein Gregorys Alans Phipps, „Gilded Creatures Straining and Dying: Performances of Blondness and Feminine Ethereality in Emily Dickinson’s Poetry“ (Gylltar verur þjást og deyja: Ljóst hár og yfirjarðneskir eiginleikar kvenna í ljóðum Emily Dickinson) er helguð þeim mótsögnum og tvíhyggju sem fólust í almennum hugmyndum um ljóst hár á nítjándu öld. Ljóst hár var lengi tengt hugmyndum um kvenlegt sakleysi, fullkomnun og yfirjarðneska eiginleika en um miðja nítjándu öld öðlaðist þessi háralitur nýjar og mótsagnakenndar merkingar í bandarískri dægurmenningu. Í greininni er fjallað um þessar breytingar út frá tveimur af ljóðum bandarísku skáldkonunnar Emily Dickinson, „The Moon was but a Chin of Gold“ og „You’ve seen Balloons set – Hav’nt You?“. Bókmenntir Rómafólks eru viðfangsefni Ásdísar R. Magnúsdóttur í greininni „Sjálfsmynd, framandleiki og tungumál í verkum Matéos Maximoff: rómíska í íslenskum þýðingum“. Rómíski rithöfundurinn og sagnamaðurinn Matéo Maximoff skrifaði flest sín verk á frönsku. Eins og margir rómískir rithöfundar á 20. öld vildi hann gera sögu og menningu Rómafólks góð skil í skáldverkum sínum. Það gerir hann með því að skjóta inn upplýsingum um siði og sögu Rómafólks en einnig notar hann bæði orð og setningar úr tungumáli þeirra og gefur það franska frumtextanum framandi yfirbragð. Hér er sagt frá hugarheimi Matéos Maximoff og notkun rómískra orða í skáldverkum hans. Dæmi eru tekin úr íslenskri þýðingu á nokkrum sögum úr smásagnasafninu La poupée de Mameliga. Le livre de la peur (Brúða Mameligu. Bók óttans). Þýðingar á bókmenntaverkum geta skipt sköpum um viðtökur þeirra og á það ekki síst við um leikhúsþýðingar. Í grein sinni „Að þýða bundið mál Shakespeares fyrir leiksvið“ segir Kristján Þórður Hrafnsson frá þeim áskorunum sem hann stóð frammi fyrir þegar honum var falið að þýða Ríkharð III fyrir Borgarleikhúsið. Ólíkt öðrum leikritaþýðingum Kristjáns er Ríkharður III í bundnu máli og í greininni fjallar hann um þau atriði sem hann hafði að leiðarljósi við þýðingu sína yfir á bundið mál á íslensku. Í þessu hefti Milli mála er nú að finna verk fimm þýðenda. Þórhildur Oddsdóttir þýðir smásöguna „Heimsóknin“ eftir Caju Rude og segir frá höfundinum. Þórir Jónsson Hraundal segir frá arabíska sagnaritaranum og ferðalanginum Ibn Fadlan og þýðir þekkt brot úr ferðasögu hans þar sem fjallað er sérstaklega um víkinga. Smásagan „Móna Lísa“ eftir skáldkonuna Alejandrinu Gutiérrez frá Níkaragva birtist hér í þýðingu Hólmfríðar Garðarsdóttur sem einnig kynnir höfundinn stuttlega. Erla Erlendsdóttir þýðir fjórar stuttar sögur úr smásagnasafninu Lugares (Staðir) eftir spænska rithöfundinn Carmen Quintana Cocolina. Að lokum birtum við smásöguna „Brúða Mameligu“ eftir rómíska rithöfundinn Matéo Maximoff í þýðingu Ásdísar R. Magnúsdóttur

CONTENT

PEER-REVIEWED ARTICLES

ABOUT TRANSLATIONS

TRANSLATIONS

AUTHORS, TRANSLATORS AND EDITORS