Milli mála 2020
Að þessu sinni eru sjö ritrýndar greinar í heftinu og er efni þeirra á sviði bókmennta, málvísinda, kennslufræði erlendra tungumála, þýðinga og ritunar. Í grein sinni „Ævintýraeyjurnar Japan og Ísland: Um Japansdvöl Nonna, 1937–1938“ fjallar Kristín Ingvarsdóttir um för hins háaldraða, kaþólska prests Jóns Sveinssonar til Japans og þá virðingu sem honum var sýnd þar, og gerir einnig grein fyrir áhrifum hans í japanskri menningu. Lítið hefur áður verið fjallað um þær viðtökur sem Jón hlaut í Japan en Kristín byggir umfjöllun sína einkum á japönskum frumheimildum og setur dvöl Jóns í Japan í samhengi við það erfiða ástand sem var uppi í japönsku þjóðfélagi á millistríðsárunum. Erla Erlendsdóttir fjallar í grein sinni „Vanadio, itrio, ángstrom … en torno a Términos cientificos de origen nórdico en español“ um norrænan orðaforða sem barst inn í spænsku fyrr á öldum og af hvaða rótum hann er runninn. Orð af norrænum rótum í spænsku eru af ýmsu tagi en í greininni er einkum fjallað um vísindalegan orðaforða, sem var tekinn upp í spænsku frá lokum 18. aldar og fram á 20. öld, oft í gegnum þriðja mál, einkum frönsku en einnig þýsku. Þessi orð má m.a. rekja til örnefna, eiginnafna og jafnvel til goðafræðinnar en engar rannsóknir hafa áður verið gerðar á þessum orðum. Í greininni „Mémorire et temps du passé“ fjallar François Frans Heenen um samband minninga og málfræðilegrar þátíðar í frönsku. Hér er á ferðinni róttæk tilraun til þess að greina tíðakerfi franskra sagna út frá ólíkri virkni minninga og leysa með því ýmis vandamál sem fylgja því að styðjast við hefðbundin hugtök um tímaskírskotun og horf hinna ýmsu tíða sagnkerfisins. Birna Arnbjörnsdóttir skrifar greinina „Enska sem kennslumál við Háskóla Íslands og kennsla í akademískri ensku“. Þar fjallar hún um ónógan undirbúning bæði kennara og nemenda þegar gerðar eru (auknar) kröfur um að allir geti lesið námsefni fræðigreina á ensku og skrifað um þau fræði á ensku. Birna lýsir þeirri þróun sem orðið hefur innan enskukennslunnar til að þjálfa nemendur í að skrifa á viðurkenndan hátt og á máli sem þykir við hæfi í fræðaheimi háskóla. Í grein sinni „Býsn og fádæmi í tungumálinu: Um magn og gæði heimilda í sögulegri setningarfræði“ hugleiðir og rekur Þórhallur Eyþórsson dæmi um hvað lesa megi úr heimildum og hversu traustar þær þurfi að vera til þess að byggja megi á þeim kenningar um málfræðifyrirbæri í fornu máli. Eins og gefur að skilja eru dæmi úr fornum heimildum oft af skornum skammti og gömul vinnuregla minnir á að eitt dæmi dugi ekki til staðfestingar. Textinn sjálfur, sem ber dæminu vitni, getur verið textafræðilega vandasamur en auk þess dugar tilvist fáeinna dæma ekki endilega til þess að færa sönnur á að málfræðifyrirbærið hafi verið hluti af almennri málnotkun. Þórhallur bendir á að gæði dæmanna skipta meira máli en fjöldi þeirra þegar ályktanir eru dregnar af þeim og sýnir hvernig meta megi gæði dæmanna. Þorgerður Anna Björnsdóttir hefur safnað heimildum um þýðingar milli kínversku og íslensku og rekur þá sögu í greininni „Gluggi í austurátt: Þýðingasaga íslenskra og kínverskra bókmennta“. Hér gerir hún grein fyrir því efni sem þýtt hefur verið bæði úr íslensku á kínversku og úr kínversku á íslensku og nefnir höfunda og þýðendur: Þorgerður varpar ljósi á hvernig val á verkum til þýðinga er bæði breytilegt og undir áhrifum frá sviptingum stjórnmálanna í gegnum tíðina og einnig auknum samskiptum þjóðanna. Á það bæði við um íslensk verk sem þýdd hafa verið á kínversku og um kínversk verk sem þýdd hafa verið á íslensku. Að síðustu rita þær Angela Rowlings, Lara W. Hoffmann og Randi W. Stebbins um höfunda af erlendum uppruna sem vilja koma sér á framfæri á íslenskum ritvelli í greininni „Multilingual Writing in Iceland: The Reception of Ós Pressan and its Members Nationally and Internationally“. Þykja þeim viðtökur ekki alltaf góðar og fálæti gagnvart þeim ríkjandi. Í þessu hefti Milli mála er nú að finna verk átta höfunda sem þýdd hafa verið úr sex tungumálum. Elstir þeirra eru textar frá fornöld og miðöldum. Geir Þórarinn Þórarinsson þýðir úr forngrísku varnarræðuna „Um morðið á Eratosþenesi“ eftir Lýsías. Í formála segir Geir frá höfundinum og forngrískri ræðumennsku og mælskulist. Fornar ræður hafa heimildagildi um margt, s.s. réttarfar, pólitísk átök og daglegt líf auk þess að vera mikilvægar málheimildir. Þær eru, eins og Geir segir í formála, „gluggi inn í gríska menningu 5. og 4. aldar f.o.t.“. Helgi Skúli Kjartansson þýðir úr latínu ljóðið „Dies Irae“ eftir Tómas frá Celano. Fleiri hafa spreytt sig á að þýða kvæðið á íslensku en í eftirmála gerir Helgi Skúli grein fyrir þýðingu sinni og fylgja henni ítarlegar skýringar. Geir Sigurðsson þýðir úr þýsku söguna „Ragna og Níls“ eftir Hans Henny Jahnn og kynnir lífshlaup höfundar í stuttu máli. Verk Jahnns hafa verið talin einkennast af ákveðnum kvíða og bölsýni, af tómhyggju og jafnvel sadómasókískum stefum en hann beinir sjónum oft að hvers kyns harðneskju og grimmd. Undanfarið hafa verk Jahnns vakið eftirtekt fyrir að beina sjónum að ýmsum jaðarhópum en segja má að Jahnn hafi sjálfur verið jaðarsettur höfundur á sínum tíma. Raddir kvenna heyrast í smásögum fjögurra kvenhöfunda sem birtast í þessu hefti. Hólmfríður Garðarsdóttir þýðir þrjár smásögur frá Paragvæ eftir þrjá kvenhöfunda og segir af ferli þeirra. Þetta eru sögurnar „Þar til dauðinn aðskilur okkur“ eftir Neida de Mendonça, „Allt fór fjandans til“ eftir Chiquita Barreto og „Amalía leitar unnusta“ eftir Delfina Acosta. Sögurnar varpa hver á sinn hátt ljósi á reynsluheim kvenna. Það gerir einnig sagan „Matsí“ eftir Sidaóruang sem Hjörleifur Rafn Jónsson þýðir úr tælensku. Smásagan afhjúpar í raun ákveðinn tvískinnung í gildum búddismans því hún flettir ofan af því hvernig konur eru síður lofaðar og jafnvel lastaðar fyrir það sem hefja myndi karlmann til skýjanna. Matsí er goðsagnakennd eiginkona Vesandons prins, sem varð Búdda. Í sögu Sidaóruang hefur Matsí verið færð inn í nútímann og henni stendur einfaldlega ekki til boða að leitast við að vera laus við hvers kyns veraldleg tengsl, eins og Hjörleifur útskýrir í formála að þýðingunni. Loks er þýðing Gunnhildar Jónatansdóttur á írska ljóðinu „Spurning um tungumálið“ (Ceist na Teangan) eftir Nuala Ní Dhomhnaill ásamt stuttri kynningu á höfundi. Í ljóðinu líkir skáldið írska tungumálinu við körfuna í sefinu sem Móses var lagður í. En írskan ber ekki Móses heldur vonir skáldsins.
CONTENT
- Geir Þórarinn Þórarinsson, Þórhildur Oddsdóttir: Frá ritstjórum
PEER-REVIEWED ARTICLES
- Kristín Ingvarsdóttir: Ævintýraeyjurnar Japan og Ísland: Um Japansdvöl Nonna, 1937–1938
- Erla Erlendsdóttir: Vanadio, itrio, ángstrom… En torno a términos científicos de origen nórdico en español
- François Heenen: Mémoire et temps du passé
- Birna Arnbjörnsdóttir: Enska sem kennslumál við Háskóla Íslands og kennsla í akademískri ensku
- Þórhallur Eyþórsson: Býsn og fádæmi í tungumálinu: Um magn og gæði heimilda í sögulegri setningarfræði
- Þorgerður Anna Björnsdóttir: Gluggi í austurátt: Þýðingasaga íslenskra og kínverskra bókmennta
- Angela Rawlings, Lara W. Hoffman, Randi W. Stebbins: Multilingual Writing in Iceland: The Reception of Ós Pressan and its Members Nationally and Internationally
TRANSLATIONS
- Geir Þ. Þórarinsson: Lýsías, „Um morðið á Eratosþenesi“
- Helgi Skúli Kjartansson: Tómas frá Celano, „Dies Irae“
- Geir Sigurðsson: Hans Henny Jahnn, „Ragna og Níls“
- Hjörleifur Rafn Jónsson: Sídaóruang, „Matsí“
- Hólmfríður Garðarsdóttir: Neida de Mendonça, „Þar til dauðinn aðskilur okkur“
- Hólmfríður Garðarsdóttir: Chiquita Barreto, „Allt fór fjandans til“
- Hólmfríður Garðarsdóttir: Delfina Acosta, „Amalía leitar unnusta“
- Gunnhildur Jónatansdóttir: Nuala Ní Dhomhnaill, „Spurning um tungumálið“
AUTHORS, TRANSLATORS AND EDITORS
- Geir Þórarinn Þórarinsson, Þórhildur Oddsdóttir: Höfundar, þýðendur og ritstjórar