Milli mála 2017
Tímaritinu hafa borist margar greinar undanfarna mánuði og birtast sjö þeirra í þessu hefti, skrifaðar á íslensku, dönsku, frönsku og spænsku. Allar eru greinarnar ritrýndar. Børge Kristiansen skrifar greinina „Identitetsproblemet i Joseph Conrads Lord Jim“. Þar leiðir hann rök að því að sjálfsmynd sé eitt meginþemað í þessari frægu skáldssögu. Því er haldið fram á að persónuleiki Jims einkennist af klofinni sjálfsmynd sem fræðimenn hafi ekki gefið gaum áður. Að dómi Kristiansens er Jim klofinn á milli „sjómanns“ og þeirrar „hetju“ sem hann vill vera. Niðurstaðan er að sérstakur skilningur Conrads á sjálfsmyndarhugtakinu liggi til grundvallar hörmulegum endi skáldsögunnar. Næsta grein heitir „La construcción discursiva del diálogo desde la perspectiva dialéctica en La trastienda de los ojos de Carmen Martín Gaite“. Þar fjallar Carmen Quintana Cocolina um smásögu eftir spænska höfundinn Carmen Martín Gaite. Í því samhengi nýtir hún sér hugtök og aðferðafræði í kenningum um nýja nálgun í bókmenntarannsóknum sem nefna má venslamiðaða samtalshyggju (Theory of Relational Dialectics). Markmiðið er beita þessari nálgun til að skilja samspil ólíkrar orðræðu og ákvarða merkingu samtals sem er byggð upp á röklegan hátt. Í greininni „Tvíþætt eðli lýsingarþátíðar“ þróar François Heenen enn frekar kenningu sem hann setti fram í þessu tímariti árið 2015. Kenningin gengur út á það að franska lýsingarþátíðin (imparfait) hvetji viðmælandann til að ímynda sér „staðlaða mynd“ af atvikinu sem segðin á við. Í greininni í þessu hefti leitast höfundurinn við að sýna fram á hvernig kenningin hjálpar til að skilja ýmsa eiginleika þessarar tíðar. Niðurstöður höfundarins eru að þessir eiginleikar stafi af því að viðmælandinn þarf að ákveða tímasetningu atviksins til þess að geta ímyndað sér það. Íslenska og japanska eru ólík mál en þó eiga þau ýmislegt sameiginlegt, eins og þær Karítas Hrundar Pálsdóttir og Sigríður Sigurjónsdóttir rekja í greininni „Tungumál tveggja eylanda: Að hvaða leyti er japanska frábrugðin íslensku?“ Ekki síst eru viðhorf Íslendinga og Japana til móðurmála sinna að sumu leyti svipuð en margt í málaðstæðum er ólíkt, að ekki sé minnst á málfræðina sjálfa en japanska er ekki mikið beygingamál í sama skilningi og íslenska. Sérstaklega vekur athygli að í japönsku eru margar ólíkar leiðir til að tjá kurteisi en fáar leiðir til þess í íslensku, eftir að þérun lagðist af á Íslandi. Í greininni „El microtexto en las novelas de David Trueba“ fjallar Laura Canós Antonino um notkun örtexta í verkum spænska rithöfundarins David Trueba, einkum í skáldsögunni Tierra de Campos. Sýnt er fram á hversu mikilvægu hlutverki slíkir örtextar gegna í frásögninni og hvernig unnt er að rekja þróun frásagnarstíls höfundarins í samhengi verka hans. „Tænkning og læsning – forberedelser til handlingslivet“ nefnist grein eftir Lisbet Rosenfeldt Svanøe. Markmiðið með greininni er einkum að sýna hvernig ber að skilja hugsun út frá sjónarhorni Hönnu Arendt og hvernig það mótar siðferðisdóma okkar. Enn fremur er fjallað um tengsl tungumáls, minnis og ímyndunarafls sem er nauðsynlegt hugsuninni ef það er skilið sem innri samræða einstaklingsins. Með hiðsjón af þessum atriðum lýsir síðasti hluti greinarinnar áhrifum tungumáls á ímyndunarafl, dóma og hugsun og þar með á hæfni mannsins til siðlegrar breytni. María Anna Garðarsdóttir, Kristof Baten og Matthew Whelpton skrifa ítarlega grein sem nefnist „Tileinkun frumlagsfalls í íslensku sem öðru máli“. Í greininni eru lagðar fram tvær tilgátur byggðar á svokallaðri „úrvinnslukenningu“; það er námskenning sem er miðlæg í annarsmálsfræðum og gerir ráð fyrir því að málneminn þurfi að byggja upp sértæka úrvinnslufærni í huganum áður en hann getur unnið úr ákveðnum formgerðum tungumálsins. Önnur tilgátan spáir fyrir um þróun frumlagsfalls á nafnliðum í íslensku sem öðru máli en hin spáir því að frumlagsfall þróist áður en fallið fær hlutverk. Í tilgátunni um þróun frumlagsfalls er því spáð að fall þróist í fyrsta sæti hlutlausrar orðaraðar í tiltekinni röð. Síðari tilgátan miðar við að í setningum sem víkja frá hlutlausri orðaröð ráðist málfræðilegt gildi nafnliða af hlutverki sínu í setningunni. Auk ritrýndra greina er í heftinu viðtal við Vigdísi Finnbogadóttur sem nefnist „Að spjalla við heiminn“. Ásdís R. Magnúsdóttir ræddi við Vigdísi í apríl 2018. Að venju eru í heftinu nokkrar þýðingar. Erla Erlendsdóttir birtir þýðingu á þrem örsögum eftir Virgilio Piñera frá Kúbu. Hólmfríður Garðarsdóttir á hér þýðingu á smásögu eftir Julietu Pinto frá Kosta Ríka. Loks birtir Hólmfríður tvö ljóð sem hún þýddi í samstarfi við Lindu Vilhjálmsdóttur, annað eftir Lilliam Moro frá Kúbu og hitt eftir Pauru Rodríguez Leytón frá Bólivíu.
CONTENT
- Gísli Magnússon og Þórhallur Eyþórsson: Frá ritstjórum
- Ásdís Rósa Magnúsdóttir: Að tala við heiminn. Spjallað við Vigdísi Finnbogadóttur
PEER-REVIEWED ARTICLES
- Børge Kristiansen: Identitetsproblemet i Joseph Conrads Lord Jim
- Carmen Quintana Cocolina: La construcción discursiva del diálogo desde la perspectiva dialéctica en La trastienda de los ojos de Carmen Martín Gaite
- François Heenen: L’imparfait, un temps à deux procédures
- María Anna Garðarsdóttir, Kristof Baten og Matthew Whelpton: Tileinkun frumlagsfalls í íslensku sem öðru máli
- Karítas Hrundar Pálsdóttir og Sigríður Sigurjónsdóttir: Tungumál tveggja eylanda: Að hvaða leyti er japanska frábrugðin íslensku?
- Laura Canós Antonino: El microtexto en las novelas de David Trueba
- Lisbet Rosenfeldt Svanøe: Tænkning og læsning – forberedelser til handlingslivet
TRANSLATIONS
- Virgilio Piñera: Þrjár örsögur (Helvíti, Fjallið, Andvaka)
- Erla Erlendsdóttir: Um Virgilio Piñera
- Julieta Pinto: „Ég hef syndgað faðir…“
- Hólmfríður Garðarsdóttir: Um Julietu Pinto
- Lilliam Moro: En memoria de ellos / Í minningu þeirra
- Hólmfríður Garðarsdóttir: Um Liliam Moro
- Paura Rodríguez Leytón: Pensando en Wilde / Hugsað um Wilde
- Hólmfríður Garðarsdóttir: Um Pauru Rodríguez Leytón
AUTHORS, TRANSLATORS AND EDITORS
- Gísli Magnússon og Þórhallur Eyþórsson: Höfundar, þýðendur og ritstjórar