Milli mála 2014
Í þetta sinn eru fimm ritrýndar greinar í heftinu og eru þær skrifaðar á íslensku, dönsku og frönsku. Í grein sinni um dönskukunnáttu Íslendinga á 19. öld bendir Auður Hauksdóttir á að Íslendingar hafi notað dönsku í samskiptum við Dani og einnig hafi hún gegnt mikilvægu hlutverki innan stjórnsýslunnar. Margir Íslendingar lærðu dönsku upp á eigin spýtur en danska var einnig kennd í skólum, t.d. Lærða skólanum, þótt lítil áhersla væri lögð á talmál í þeim kennsluaðferðum sem þá tíðkuðust. Eftir að farið var að kenna á dönsku í Danmörku hafi margir íslenskir námsmenn því átt erfitt með að skilja og tala tungumálið. François Heenen skrifar um franska lýsingarþátíð (fr. imparfait) og afbrigðilega notkun hennar þar sem þátíðarmerking og ólokið horf virðist ekki taka gildi. Hann gerir grein fyrir ólíkum kenningum fræðimanna á þessu sviði og bendir á að þar komi fram að í merkingu frönsku lýsingarþátíðarinnar sé breyta sem þurfi að ákvarða, en til þess að finna breytuna þurfi viðmælandinn að draga viðbótarályktanir sem bæði hann og mælandinn geti ímyndað sér fyrir fram. Höfundurinn setur fram þá tilgátu að í þessum tilvikum hafi lýsingarþátíðin pragmatískt hlutverk, henni sé ætlað að hafa hugræn áhrif og viðmælandinn eigi að dragi ályktanir. Í greininni „Nærvera og heimspekileg fagurfræði í skáldsögu Pascals Mercier Perlmanns Schweigen“ fjallar Gísli Magnússon um skáldverk svissneska rithöfundarins Pascals Mercier (skáldanafn heimspekingsins Peters Bieri) frá árinu 1995. Eitt aðalviðfangsefni sögunnar er nærvera og nærveruleysi og kemur það fram í vaxandi erfiðleikum söguhetjunnar með að finna fyrir nærveru. Greinarhöfundur styðst við heimspekilega fagurfræði í umfjöllun sinni um verkið og skýrir ólíkar hliðar hugtaksins „nærvera“ út frá þeirri hefð. Önnur skáldsaga er til umfjöllunar í greininni „Melódramatískur módernismi“. Þar fjallar Annemette Hejlsted um skáldsöguna Marie. En roman om Madame Tussauds liv eftir dönsku skáldkonuna Dorrit Willumsen sem kom út árið 1983. Frásagnaraðferð höfundarins er skoðuð og sýnt hvernig Dorrit Willumsen notar módernískan frásagnarmáta til þess að flétta sögulegu skáldsöguna saman við hið melódramatíska. Þannig krefjist skáldsagan þess að lesandinn lúti hinu melódramatíska um leið og hann tekur virkan þátt í að túlka verkið. Að lokum skrifar Irma Erlingsdóttir um pólitík, kynjamun, drauma og andspyrnu í verkum frönsku skáldkonunnar Hélène Cixous. Hún bendir á að hið pólitíska í skrifum hennar eigi sér stað í tungumálinu sjálfu, sem opnast fyrir einhverju sem gæti orðið. Það varði í senn pólitík, bókmenntir og skrif. Skrifin sjálf séu því pólitísk. Í greininni er sjónum beint að tengslum milli hins pólitíska, hins ljóðræna og kynjamunar í verkum Hélène Cixous og þeirri andstöðu sem þessi tengsl mæta. Þrjár þýðingar birtast í þessu hefti tímaritsins. Rebekka Þráinsdóttir þýðir smásögurnar „Líkkistusmiðurinn“ og „Skotið“ eftir rússneska skáldið Alexander Púshkín. Hún kynnir höfundinn og verkin tvö stuttlega. Hér birtist einnig þýðing Rúnars Helga Vignisson á smásögunni „Hinn ungi herra Brown“ eftir bandaríska rithöfundinn Nathaniel Hawthorne sem Rúnar Helgi kynnir fyrir lesendum. Að lokum er að finna í heftinu drög að skrám yfir íslenskar þýðingar á rússneskum ljóðverkum á Íslandi frá 1878 til 2015. Natalia Demidova tók efnið saman og skrifaði einnig greinargerð um skrárnar. Rebekka Þráinsdóttir, aðjunkt í rússnesku, fór yfir skrárnar og greinargerðina og fær hún þakkir fyrir.
CONTENT
- Ásdís R. Magnúsdóttir: Frá ritstjórum
- Auður Hauksdóttir: Um dönskukunnáttu Íslendinga á nítjándu öld
- Gísli Magnússon: Nærvær og filosofisk æstetik i Pascal Merciers roman Perlmanns Schweigen
- François Heenen: Les usages stylistiques de l’imparfait
- Annemette Hejlsted: Melodramatisk modernisme – en læsning af Dorrit Willumsens roman Marie. En roman om Madame Tussauds liv
- Irma Erlingsdóttir: Inscriptions du politique chez Hélène Cixous. Différence sexuelle, rêves et résistances
TRANSLATIONS
- Rebekka Þráinsdóttir: Um Alexander Púshkín og Sögur Belkíns.
- Alexander Púshkín: Líkkistusmiðurinn
- Alexander Púshkín: Skotið
- Rúnar Helgi Vignisson: Um Nathaniel Hawthorne
- Nathaniel Hawthorne: Hinn ungi herra Brown
OTHER ARTICLES
- Natalia Demidova: Rússneskur kveðskapur á Íslandi
- Natalia Demidova: Drög að skrá yfir íslenskar þýðingar rússneskra ljóðverka eftir birtingarári
AUTHORS, TRANSLATORS AND EDITORS
- Ásdís R. Magnúsdóttir: Höfundar, þýðendur og ritstjórar