Milli mála 2024

Því minna því meira. Því styttra því betra. Þetta er stundum sagt þegar kemur að skrifum á stuttum textum sem þykja því ágætari því meitlaðri og knappari sem þeir eru. Það er töluverður sannleikur í þessum orðum þótt við viljum ekki ganga svo langt að taka undir með Leonardo da Vinci sem á að hafa sagt að „ekkert“ sé æðsta form listar, tilvera þess sem ekki er. Reyndar eru til örsögur sem ganga út á „ekkert“ og eru ekki nema titill og auð síða. Þá er reiknað með hugmyndaflugi og andagift lesandans. 

Stutt ritform eiga það til að líða fyrir það að vera stutt. Þess er skemmst að minnast að á smásöguna hefur stundum verið litið sem litlu systur skáldsögunnar og jafnvel sem eins konar æfingu áður en lagt er til atlögu við lengri verk. Í ljósi þessa var Stutt – rann­sókna­stofa í smásögum og styttri textum sett á laggirnar við Hug­vísindasvið Háskóla Íslands fyrir nokkrum árum. Megin­markmið stofunnar er að efla rannsóknir, þýðingar og miðlun á smá­sögum og stuttum text­um fyrir fræðimenn og þýðendur úr ólíkum áttum. Með styttri text­um er meðal annars átt við örsögur, smá­prósa, anek­dótur, ævintýri, þjóðsögur, fabúlur, exempla, textabrot, strengleika/stuttar ljóð­sögur, esseyjur og skemmtisögur. Í raun örverk af hvaða meiði sem er: örleikrit, kjarnyrði, veggjakrot, smá­skilaboð, aug­lýsingar og fleira. Eins og sjá má geta stutt form verið alls konar enda eru þau bæði gömul og ný. Þau hafa fylgt mann­kyninu frá aldaöðli.

Í janúarmánuði 2023 efndi Stutt – rannsóknastofa í smásögum og styttri textum til málþings um örtexta, gamla og nýja. Þingið var haldið í Veröld og var helsti tilgangur þess að skapa svigrúm fyrir fræði­lega umræðu um örstutt bókmenntaverk. Flutt voru sjö áhuga­verð erindi um ólíkar gerðir smáverka sem mynda grunninn að þessu hefti. Einnig las Magnús Sigurðsson rithöfundur upp úr nýút­komnu verki sínu en eitt af markmiðum stofunnar er að kynna höfunda, íslenska og erlenda, sem skrifa stutta texta. Í kjölfarið var ákveðið að helga sérhefti Milli mála 2024 efni þingsins. Heftið  endurspeglar fjölbreytileika stuttra verka, tekur á nýjum formum, örsögunni, en einnig eldri svo sem ævintýrum, þjóðsögum og dæmi­sögum, að ógleymdum prósa­ljóð­um, sem oft eru nálægt örsög­unni. Við hæfi þótti að gefa argentíska rithöfundinum og ör­sagna­fræðingnum Raúl Brasca fyrstum orðið og fjallar grein hans um eyðuna í örsögunni sem lesandinn fær sjálfur að ráða í. Rebekka Þráinsdóttir segir þar næst frá ljóðum í lausu máli eftir Ívan Túrgenev sem birtust í ritinu Senilia. Aðal­heiður Guðmunds­dóttir kynnir Ævintýragrunninn og tekur dæmi um nytsemi hans við rannsóknir á íslenskum ævintýrum. Knappir textar Franz Kafka eru til umfjöllunar í grein Ástráðs Eysteins­sonar og Kristín Guðrún Jónsdóttir beinir sjónum að síren­um í örsögum og rekur upp­runa þeirra sagna til ferða Ódys­seifs. Hjalti Snær Ægisson gerir grein fyrir tengslum dæmisagna og helgi­sagna, en örsögur og smá­sögur í sagnasveig eftir David Arnason er viðfangsefni Guðrúnar Bjarkar Guðsteinsdóttur. Rýnt er í dæmisögur í Kvöld­vökunum 1794 eftir Hannes Finnsson biskup í grein Ásdísar Rósu Magnúsdóttur og að lokum fjallar Áslaug Agnars­sdóttir um rit­höfundinn Danííl Kharms og rússnesku ör­söguna.

Nokkur smáverk af ólíkum toga og uppruna er að finna í heftinu. Rúnar Helgi Vignisson spreytir sig á fundnum formum og gerir jafnframt grein fyrir því hvað átt er við með þessu heiti og hvernig stuttir textar leita gjarnan í stöðluð form. Þá eru birtar nokkrar þýdd­ar örsögur, allt frá fornöld til samtímans, eftir Huainanzi, Valerius Maximus, Leonardo da Vinci, Jules Lefèvre-Deumier, Ívan Túrgenev, Félix Fénéon, Sławomir Mrożek, Joyce Carol Oates, Karla Barajas og úr verkum Zhuangzi. 

Ritstjórar þakka höfundum, þýðendum, ritrýnum, prófarkalesara og um­brots­konu frábært samstarf við gerð og frágang heftisins. Einnig þökkum við Styrktarsjóði Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum fyrir ómetanlegan stuðning við útgáfu tímaritsins.

Heftið í heild sinni má nálgast hér

 

EFNISYFIRLIT

RITRÝNDAR GREINAR

ÓRITRÝNDAR GREINAR

ÞÝÐINGAR

HÖFUNDAR, ÞÝÐENDUR OG RITSTJÓRAR